Skjálftavirkni norðan Dyngjujökuls

Kristín Jónsdóttir, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, staðfesti í samtali við mbl.is að skjálftavirkni á Vatnajökulssvæðinu væri nú meiri norðan Dyngjujökuls en áður, um 4 kílómetra norðan við jökulinn. Þetta bendir til þess að berggangurinn sé að brjóta sér leið út fyrir jökulinn.

Fjöldi skjálfta væri að aukast, auk þess sem stærri skjálftar hefðu mælst, bæði við enda berggangsins og í öskjunni sjálfri.

Kristín sagði tvær skýringar líklegar á þessari breyttu skjálftahegðun. „Önnur er að jarðskorpan sem kvikan er að brjóta sér leið í gegnum sé kaldari en sú sem hún hefur áður farið í gegnum. Hin skýringin gæti verið að það væri meiri kvika í bergganginum og meiri hamagangur.“

Þetta gæti haft það í för með sér að gosið yrði ekki undir jökli. Slíkt myndi þýða mun minni hættu á jökulhlaupi og öskufalli, sem og minni líkur á að flugumferð myndi raskast ef til goss kæmi.

Kristín bendir hins vegar á að jafnvel þótt gosið hæfist utan jökuls gæti gosopið rifnað inn í jökulinn, en dæmi eru um að gosop rifni með þeim hætti, eins og gerðist í Kröflueldum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert