Stærsti skjálfti frá 1996

Vísindamenn hjá Veðurstofu Íslands fylgjast grannt með ástandinu.
Vísindamenn hjá Veðurstofu Íslands fylgjast grannt með ástandinu. mbl.is/Styrmir Kári

Jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands telur að askjan í Bárðarbungu sé að aðlaga sig eftir breytingar á kvikuþrýstingi sem útskýri jarðskjálfta upp á 5,3 stig, sem varð rétt eftir miðnætti. Það er stærsti skjálfti sem hefur mælst á svæðinu í 18 ár. Engar vísbendingar eru um að eldgos sé í gangi undir Dyngjujökli. 

Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að kvikan hafi verið að þrýstast inn bergganginn, líklega úr suðausturhluta öskjunnar, og þegar það gerist geti komið kippur líkt og varð kl. 00:09 í nótt.

Þá segir Gunnar, að miklar breytingar séu að eiga sér stað og töluverð kvika hafi farið inn í ganginn. Hann tekur hins vegar fram að það sé ómögulegt að spá um hvar berggangurinn endar.

„Þetta er stærsti skjálftinn í þessari hrinu og upptökin eru við norðurbrún öskjunnar í Bárðarbungu,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is, spurður út í stóra skjálftann.

Hann segir að þetta sé stærsti jarðskjálfti sem orðið hafi á þessu svæði frá september 1996, en þá varð sterkur skjálfti stuttu áður en það gaus í Gjálp undir Vatnajökli.  „Þá var skjálfti yfir fimm sem var undanfari Gjálpargossins,“ segir hann.

Hann segir að mesta skjálftavirknin sé í framrásinni sem myndaðist í gærmorgun, þ.e. norðurundir Dyngjujökli. „Flestir skjálftarnir eru þar en stærstu skjálftarnir eru undir öskjunni í Bárðarbungunni sjálfri,“ segir Gunnar. Hann bætir við að útlit sé fyrir að kvikan sé að reyna komast áfram norður eða norðaustur. Það gerist hins vegar ekki eins hratt og var á tíunda tímanum í gærmorgun.

Þá segir hann að flestir skjálftar mælist á yfir fimm kílómetra dýpi. „Þeir hafa ekki verið að grynnka neitt.“ 

Aðspurður segir Gunar að enginn gosórói sé sjáanlegur á þessari stundu. „Það sást aðeins í gosóróa í gærmorgun í stuttan tíma.“

Eins og fram kemur á vef Veðurstofu Íslands verður litakóði fyrir flug áfram rauður þar sem ekki sé hægt að útiloka að eldgos sé yfirvofandi. Staðan verður hins vegar endurmetin í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert