Fjarskiptaþjónusta lá niðri í fimm tíma

Fjarskiptaþjónusta Símans, þar með talið sími, nettengingar og farsímar, á …
Fjarskiptaþjónusta Símans, þar með talið sími, nettengingar og farsímar, á Vestfjörðum lágu niðri meira og minna í 5 klukkustundir í dag. mbl.is/Ernir

Bæjarráð Bolungarvíkur skorar á stjórnvöld að tryggja það að fjarskiptamál á Vestfjörðum séu í lagi. Hringtengin við ljósleiðara sé eina leiðin til iað koma í veg fyrir að fjarskiptaþjónusta liggi niðri klukkustundum saman líkt og átti sér stað í dag.

Þetta kemur fram í ályktun bæjarráðsins um fjarskiptamál á Vestfjörðum. Þar segir:

„Í ljósi þess að í dag lá fjarskiptaþjónusta Símans, þar með talið sími, nettengingar og farsímar, á Vestfjörðum niðri meira og minna í 5 klukkustundir þá vill bæjarráð Bolungarvíkur ítreka þá sjálfsögðu kröfu Vestfirðinga að ljósleiðari verði hringtengdur á Vestfjörðum.  Enginn mannlegur máttur getur komið í veg fyrir að ljósleiðarasamband rofni vegna mannlegra mistaka eða vegna ófyrirsjáanlegra atburða í náttúrunni.“

„Hringtenging er eina leiðin til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir hafi veruleg áhrif á atvinnulíf og daglegt líf Vestfirðinga svo ekki sé minnst á hversu alvarlegt það er ef slíkt sambandsleysi leiðir til þess að ekki er hægt að ná sambandi við neyðarlínu eða viðbragðsaðila. Skorað er á stjórnvöld að tryggja þessa grunnþjónustu við Vestfirði með hringtengingu ljósleiðarans,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert