Síminn biður Vestfirðinga afsökunar

Kort af Vestfjörðum
Kort af Vestfjörðum Fjórðungssamband Vestfjarða/Landmælingar

„Síminn biður Vestfirðinga innilegrar afsökunar og harmar óþægindin sem þessar bilanir valda,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, en fjarskiptaþjónusta Símans á á Vestfjörðum liggur að mestu niðri eftir að bilun varð í stofnneti Mílu í morgun.

Viðgerð stendur yfir en rofið á fjarskiptaþjónustu þýðir að íbúar á Vestfjörðum geta ekki notað farsíma eða borðsíma ef þeir eru með þjónustu hjá Símanum. Notendur Vodafone ættu hins vegar ekki að lenda í neinum vandræðum.

Þá veldur þetta truflun á afgreiðslu því víða er ekki hægt að kaupa eldsneyti eða greiða með greiðslukortum í verslunum. Þá liggur sjónvarp Símans einnig niðri.

„Síminn mun gera það sem í valdi fyrirtækisins stendur til að hraða því að þjónustan komist í lag,“ segir Gunnhildur Arna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert