Dregið úr sendingu stöðuskýrslna

Dyngjujökull.
Dyngjujökull. mbl.is/RAX

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur sent út stöðuskýrslu um jarðhræringarnar í norðanverðum Vatnajökli daglega á íslensku og á ensku frá 20. ágúst. Framvegis verða slíkar skýrslur ekki sendar út nema umtalsverðar breytingar verði.

Fundi vísindamannaráðs almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og hefur það komið saman daglega og oftar eftir atvikum frá því jarðskjálftahrinan við Bárðarbungu hófst.

Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom eftirfarandi fram: 

• Skjálftavirkni er enn mjög mikil, rúmlega 700 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Virknin er nú að mestu utan jökuls og hefur þokast u.þ.b einn km til norðurs frá því í gær.

• Klukkan 00:16 mældist skjálfti af stærðinni 5,3 í Bárðarbunguöskjunni,  kl. 02:50 mældist annar stór skjálfti af stærðinni 5,2 á svipuðum slóðum. Klukkan 01:52 mældist skjálfti af stærðinni 4,5 austantil í Öskju og hefur dálítil smáskjálftavirkni fylgt í kjölfarið.

• Kvikugangurinn undir Dyngjujökli er nú talinn vera rúmlega 40 km langur. Líkanreikningar byggðir á GPS mælingum benda til þess að rúmmálsaukningin síðasta sólarhringinn sé rúmlega 20 milljónir rúmmetra.

• Líkanreikningar benda til að kvikugangurinn hafi valdið verulegum spennubreytingum á stóru svæði, m.a. til norðurs sem gæti skýrt skjálftavirkni í Öskju.

• Engar vísbendingar eru um að dragi úr ákafa atburðanna.

• Stöðuskýrslur hafa verið sendar út daglega á íslensku og ensku frá 20. ágúst. Framvegis verða daglegar stöðuskýrslur ekki sendar út nema umtalsverðar breytingar verði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert