Neyðarstigi aflétt

Vísindamenn flugu yfir svæðið í dag.
Vísindamenn flugu yfir svæðið í dag. mbl.is/Golli

Ríkislögreglustjóri hefur að höfðu samráði við lögreglustjóranna á Húsavík og Seyðisfirði ákveðið að lækka almannavarnastig af neyðarstigi niður á hættustig vegna eldgossins í Holuhrauni sem hófst um miðnætti og lauk um kl. 4 í nótt.

Fram kemur í tilkynningu, að ákvörðunin sé byggð á mati vísindamanna í Vísindaráði á stöðunni eins og hún er núna. Enn er mikil jarðskjálftavirkni í gangi og óljóst hver framvindan verður og er fólk því beðið að fylgjast náið með fréttum um stöðu mála.

Lokanir í Jökulsárgljúfrum að Dettifossi að vestanverðu eru enn í gildi sem og lokanir á hálendinu norðan Vatnajökuls.

Klukkan 10 í morgun færði Veðurstofa Íslands litakóðann fyrir flug yfir Bárðarbungu á appelsínugulan þar sem ekki er talið líklegt að aska berist upp í lofthjúpinn. Litakóði fyrir flug yfir Öskju er enn gulur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert