Vonandi sjáum við bjarmann

Rafael og Jean Baptiste frá Frakklandi.
Rafael og Jean Baptiste frá Frakklandi. Eggert Jóhannesson

Á tjaldsvæðinu við Eldá við Mývatn blés hraustlega og hafði blásið í alla nótt. Þar voru þreyttir ferðalangar enda nóttin erfið. Það hvein í hverri tjaldstöng.

Félagarnir Jean Baptiste og Rafael frá Frakklandi bókuðu ferðalag til Íslands fyrir aðeins viku. Þeir vonuðust eftir eldgosi og trúðu varla blaðamanni þegar hann tilkynnti þeim að gos væri hafið. „Í alvörunni, getum við séð myndir. Ertu með myndir? Ég trúi þessu ekki. Við nefnilega óskuðum okkur að það myndi gerast,“ sagði Rafael himinlifandi.

Ekki var gleðin minni hjá Jean vini hans. „Vá, þvílíkt og annað eins. Þetta var auðvitað ein af ástæðunum fyrir að við komum. Það er auðvitað stormur hérna núna og maður sér ekki neitt en kannski sjáum við það - vonandi sjáum við bjarmann frá gosinu.“

Eggert ljósmyndari Morgunblaðsins reif upp símann sinn og sýndi þeim myndir frá Holuhrauni. Viðbrögð þeirra hefðu verið gott efni í America's funniest home videos.

Þeir félagar voru að pakka saman tjaldinu sínu og höfðu lítið sofið vegna vindsins. „Það voru gríðarleg læti í nótt, tjaldið hristist allt og við sváfum ekkert rosalega mikið. Við héldum að tjaldið myndi fjúka út á vatn um tíma. En maður sefur bara seinna,“ sagði Rafael.
Þeir félagar eiga bókað flug heim til Frakklands á föstudag og ætla að fara austur fyrir land að skoða Austfirðina, Jökulsárlón og svo Suðurlandið áður en þeir fljúga á föstudaginn.

Sigurjón Árni Pálsson var að taka saman tjaldvagninn sinn, örlítið þreyttur vegna ágangs vindsins í nótt og hafði lítið sofið. Sigurjón ætlaði að keyra til síns heima í dag. „Nóttin var fín, það voru smálæti í vindinum en maður er nú öllu vanur hér á Íslandi. Stefnan er sett heim í dag. Þetta var bara smáskrepp. Ég og frúin keyrðum bara og keyrðum og enduðum hér í Mývatnssveit. Hér var gott að vera enda heitt og gott í gær.“
Hann hló nú bara að spurningu blaðamanns um hvort hann væri eitthvað stressaður vegna eldgossins. „Ég get ekki sagt það. Ekki núna allavega.“

Sigurjón Árni Pálsson var ekkert sérlega stressaður yfir eldgosi og …
Sigurjón Árni Pálsson var ekkert sérlega stressaður yfir eldgosi og ætlaði að keyra til síns heima í rólegheitum. Eggert Jóhannesson
Hvassviðri er á tjaldsvæðinu Eldá
Hvassviðri er á tjaldsvæðinu Eldá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert