Mælst hafa 300 skjálftar frá miðnætti

Hraungos stendur enn yfir í Holuhrauni og jarðskjálftavirkni á svæðinu er stöðug samkvæmt stöðuskýrslu almannavarna. Skjálftavirkni hefur hins vegar verið mun minni undanfarnar 24 klukkustundir eða um helmingur þess sem hún hefur verið undanfarna daga.

„Frá miðnætti hafa mælst um 300 skjálftar. Á sama tíma í gær greindust 500 skjálftar á mælum. Rétt fyrir hádegi varð jarðskjálfti M4,7 við norðanverða brún Bárðarbunguöskjunnar og eftir hádegið um klukkan tvö varð skjálfti M4,3 við sunnanverða brún Bárðarbunguöskjunnar. GPS-tæki í nágrenni innskotsins sýnir mun minni færslur en fyrir gosið. Það hefur gerst á sama tíma og skjálftavirknin hefur minnkað. Þetta gefur til kynna að kvikuflæðið inn í ganginn og kvikuflæði inn í gosinu eru gróft séð í jafnvægi eins og er.“

Ennfremur segir að engin aska komi frá gosinu. Hvítur gosmökkur rísi um 4,5 km frá gosstöðvunum. Vindáttin stýri áttinni sem mökkurinn fer. Í gær hafi hann náð um 60 km til norðnorðausturs. „Í samanburði við gærdaginn mælist nú meira rúmmál brennisteinsdíoxíðs undan vindi frá eldstöðinni. Sandstormur á gossvæðinu kann að hafa blandað örfínum ögnum upp í gosmökkinn, og kann að útskýra ljósbrúna móðu yfir Egilsstöðum í morgun. Gossprungan er um 1.5 km á lengd um 4.5 km frá jökulrönd Dyngjujökuls. Klukkan 14:00 í gær var flatarmál hraunsins um 4.2 ferkílómetrar. Eldgosið heldur áfram þó það virðist hafa dregið lítillega úr virkninni frá því sem var í gær.“

Þá segir að umtalsvert magn af SO2 stígi upp af hrauninu. Nauðsynlegt sé fyrir alla sem vinna nálægt gosstöðvunum að vera með gasmæla og hafa gasgrímur tiltækar. Sérstök hætta geti skapast í lægðum þar sem þessi efni setjast og /eða þar sem er lygnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert