Smábátasjómenn fá ekki meira

Smábátasjómenn fá ekki aukinn afla.
Smábátasjómenn fá ekki aukinn afla. Sigurður Bogi Sævarsson

„Við fórum fram á þetta vegna þess að veiðin er alveg á fleygiferð og gengur mjög vel þessa dagana,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, en hann hélt í dag til fundar við sjávarútvegsráðherra og óskaði eftir aukinni heimild smábáta til makrílveiða. Ráðherra varð hins vegar ekki við beiðni smábátasjómanna.

Úthlutað var sérstaklega 6.800 tonnum af makríl í einn pott til krókaveiða og vildi Landssamband smábátaeigenda fá að veiða alls 10.000 tonn eða að veiðar yrðu leyfðar til 15. eða 20. september. Þeim varð hins vegar ekki að ósk sinni og verða veiðarnar því óheimilaðar frá og með 5. september næstkomandi. 

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Það að ætla þessum hóp svona litlum hlut af heildarveiðinni nær ekki nokkurri átt,“ segir Örn og bendir á að um 1,6 milljón tonn af makríl hafi nýverið mælst innan íslenskrar efnahagslögsögu. Í ljósi þessa segir hann afstöðu sjávarútvegsráðherra í málinu illskiljanlega.

Spurður hvort hann hafi verið bjartsýnn fyrir fundinn kveður Örn já við. „Við vorum mjög bjartsýnir þegar við fórum á fundinn en ráðherra telur að álit umboðsmanns Alþingis í sambandi við hlutdeild sé mjög sterkt auk þess sem hann metur það ekki gott fyrir alþjóðasamninga að verða við þessari beiðni okkar.“

Örn segir afstöðu ráðherra vera mikið áfall fyrir ekki einungis smábátasjómenn heldur einnig þær byggðir sem hafa að atvinnu að taka á móti aflanum í landi. „Fjölmargir hafa sett sig í samband við mig og lýst yfir miklum vonbrigðum. Sjómenn sem eru t.a.m. staddir við Snæfellsnes segja þar allt krökkt af makríl auk þess sem veiðin er að taka við sér í Steingrímsfirði, en þar hefur hann nánast ekkert gefið sig í sumar.“

Aðspurður segir Örn 10.000 tonna makrílkvóta mjög sanngjarnan fyrir smábátasjómenn. „Félagið hefur einsett sér það að makrílveiðar hér verði með svipuðum hætti og í Noregi. Þar veiða smábátar 15 til 16 prósent af heildarkvóta en ef við fengjum 10.000 tonn þá væri það rétt um 6 prósent af heildarveiði,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert