Þyrlan lenti á hlaðinu

Frá strandstað - Akrafell strandaði undir Vattarnesskriðum milli Reyðarfjarðar og …
Frá strandstað - Akrafell strandaði undir Vattarnesskriðum milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar um fimmleytið í morgun. Pétur Kristinsson

„Þyrlan er bara á hlaðinu,“ segir bóndinn á Vattarnesi, Baldur Rafnsson, um TF-LÍF en skip Samskipa, Akra­fell, strandaði und­ir Vatt­ar­nesskriðum milli Reyðarfjarðar og Fá­skrúðsfjarðar um fimmleytið í nótt.

„Hér er fullt af fólki, örugglega allar björgunarsveitir á Austurlandinu. Þeir hringdu fimm í morgun, þá var skipið liggur við komið upp í fjöru hjá manni. Það er komið mikið og stórt gat á skipið, þeir eru að baksa við að dæla sjó úr því. Mér heyrist á þeim að þær hafi ekkert undan þessar dælur sem þeir eru með,“ segir Baldur. Hann kveður það að sjálfsögðu alltaf áhyggjuefni að skipið mengi svæðið í kring en segir þó aðstæður góðar til björgunaraðgerða.

„Hér er logn og blíða. Skipverjar gátu í raun ekki valið sér betra strandveður. Björgunarsveitirnar eru líka komnar með einhverja flotgirðingu hérna sem á að koma í veg fyrir að mengun dreifist um svæðið ef það fer að að leka úr skipinu,“ segir hann.

Klaufaskapur í skipverjum

Baldur segir björgunarsveitirnar ekki hafa beðið sig um sérstaka hjálp en hann kveðst þó vera vel liðtækur.

„Ég er með þrjá fína báta hérna, það hefði verið hægt að nota þá. Sveitirnar eru bara svo vel í stakk búnar og með mikið af græjum,“ segir hann. Baldur segir jafnframt strandstaðinn hrægrunnan.

„Þetta hefur bara verið einhver klaufaskapur. Þetta er sker sem heitir Bakur, stendur örugglega eina tíu metra upp úr sjó. Það sést greinilega. Skipverjar hafa eflaust tekið einhverja vitlausa stefnu og lagt sig eða eitthvað,“ segir hann.

Tveir öflugir loðnubátar mættir á svæðið

Þrátt fyrir að hafa ekki verið beðinn um bátana hefur Baldur aðstoðað eftir fremsta megni.

„Þyrlumennirnir eru búnir að vera í kaffi hérna frá því klukkan átta í morgun. Þeir lentu bara á planinu og gerðu sig heimakomna. Við hjónin ætluðum að fara suður í morgun en kunnum ekki við það. Þyrlumennirnir eru engu að síður búnir að bjóða okkur far í bæinn þegar þeir fara, það er að segja svo lengi sem það kemur ekki annað útkall,“ segir Baldur kíminn.

Baldur bætir því við að háflóð hefjist um korter yfir tólf og að tvö öflug loðnuskip séu mætt á svæðið.

„Vilhelm Þorsteinsson og Aðalsteinn Jónsson, þeir ætla sjálfsagt að reyna að toga eitthvað í skipið,“ segir hann að lokum.

Mynd af strandstað -Akrafell, flutningaskip Samskipa, strandaði á fimmta tímanum …
Mynd af strandstað -Akrafell, flutningaskip Samskipa, strandaði á fimmta tímanum í nótt. Jens Dan Kristmannsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert