Minnst atvinnuleysi meðal menntafólks á Íslandi

Hlutfall 25 til 64 ára fólks, þvert á menntunarstig, í fastri vinnu er hærra á Íslandi en í nokkru öðru OECD ríki. Þetta kemur fram í árlegu riti OECD, Education at a Glance, sem fjallar um stöðu menntunar innan aðildarríkja OECD sem og fjölda annarra samvinnuríkja. 

Fram kemur að árið 2012 voru 83% aldurshópsins, óháð menntun, með fasta atvinnu. 73% þeirra sem ekki höfðu lokið menntun á framhaldsskólastigi voru í vinnu en hlutfalið hækkaði í 85% þegar fólk sem lokið hafði stúdentsprófi var tekið með í reikninginn. 91% þeirra sem lokið höfðu menntun á háskólastigi voru með fast starf og sama tala gilti um þá sem höfðu sótt sér aukalega menntun utan formlegs háskólanáms. Atvinnuleysi meðal háskólamenntaðs fólks var það minnsta innan OECD.

Minni munur á kynjunum eftir menntun

Líkt og í flestum öðrum ríkjum OECD mældist atvinnuleysi meira meðal kvenna á Íslandi en meðal karla. Mestur var munurinn á milli kynjanna í þeim hópi sem ekki hafði lokið grunnskólaprófi en 77% karla höfðu atvinnu en aðeins 67% kvenna. Munurinn á milli kynjanna minnkaði hinsvegar eftir því sem menntunarstig hópanna hækkaði og munaði einungis 2% á atvinnuleysi karla og kvenna með háskólamenntun. Munaði 7% á kynjunum þegar litið var yfir heildina en munurinn á kynjunum var 15% að meðaltali innan OECD.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert