Taka ekki þátt í lyfjakostnaði á meðan innlögn stendur

Sjúklingar sem liggja inni á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum munu ekki taka þátt í kostnaði vegna lyfja sem þeir fá meðan á innlögn stendur frekar en verið hefur, þrátt fyrir áformaðar breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga í S-merktum og leyfisskyldum lyfjum.

Greiðsluþátttakan mun einungis ná til notkunar þessarra lyfja utan sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Þar segir, að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verði S-merkt lyf og leyfisskyld lyf sem ávísað sé til notkunar utan sjúkrahúsa felld undir lyfjagreiðslukerfið frá 1. janúar næstkomandi og verði fyrirkomulagið þar með hið sama og í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

„Rök fyrir breytingunni eru margþætt. Hún styður upphaflegt markmið nýja greiðsluþátttökukerfisins um að mismuna ekki sjúklingum í kostnaði eftir sjúkdómum og tegundum lyfja. Auðveldara verður að hafa eftirlit með notkun og kostnaði og ætlað er að breytingin dragi eitthvað úr notkun þessara lyfja þar sem það hefur sýnt sig að séu lyf ókeypis er þeim ávísað í of miklum mæli og oft valin frekar en ódýrari úrræði sem sjúklinga greiða fyrir. Áætlað er að útgjöld ríkisins vegna þessarar breytingar lækki kostnað ríkisins um 145 milljónir króna en heildarkostnaður S-merktra og leyfisskyldra lyfja eru rúmir 6,4 milljarðar á ári,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir, að áfram verði hægt að sækja um lyfjaskírteini fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrofssjúkdóm, nýrnabilun á lokastigi og í meðferð við lok lífs, sem veiti þeim tiltekin lyf án greiðsluþátttöku.

Vitað er að margir sjúklingar sem þurfa á S-merktum og leyfisskyldum lyfjum að halda nota samhliða ýmis önnur lyf sem falla undir lyfjagreiðslukerfið. Greiðsluþátttökukerfið setur þak á heildarlyfjakostnað sjúklinga á ársgrundvelli og tryggir jafnræði.

Heilbrigðisráðherra mun skipa hóp fag- og hagsmunaaðila til að útfæra nákvæmlega framangreindar breytingar til að valda sem minnstu óhagræði notenda vegna þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert