Vilja að ríkið kaupi Grímstaði

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Tveir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, þau Ögmundur Jónasson og Svandís Svavarsdóttir, hafa lagt að nýju fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að ríkið kaupi jörðina Grímsstaði á Fjöllum sem kínverski athafnamaðurinn Huang Nubo hugðist á sínum tíma festa kaup á.

„Margt mælir með því að ríkið festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum sem eru í þjóðlendujaðrinum. Ríkið á þegar tvær jarðir suður af Grímsstöðum, Víðidal og Möðrudal, og um fjórðung Grímsstaða á Fjöllum. Tekið er undir það sem fram kemur í framangreindri áskorun að æskilegt er að mótuð verði stefna varðandi eignarhald og umráð yfir óbyggðum og þá sérstaklega bújörðum sem teygja sig inn á hálendið,“ segir í greinargerð með ályktuninni.

Ennfremur fylgir með áskorun sem á sínum tíma var send Alþingi undirrituð af 150 einstaklingum þar sem skorað var á þingið „að marka skýra stefnu í þessa veru og ákveða hvaða jarðir í eigu ríkisins skuli aldrei selja og að ríkið muni kaupa hliðstæðar jarðir til að tryggja að þær haldist í þjóðareign.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert