Börnin þurfa hvíld frá óttanum

Íslendingar hafa sent um 35 þúsund skókassa með jólagjöfum síðustu …
Íslendingar hafa sent um 35 þúsund skókassa með jólagjöfum síðustu 11 ár. Mynd/Jól í skókassa

Þau eru hrædd, einmana og áhyggjufull. Þau yfirgáfu það litla sem þau áttu og eru nú fjarri heimilum sínum. Þau vita ekki hvort þau muni snúa til baka og hvort húsið þeirra stendur enn eftir átökin. Þau vita ekki hvort og þá hvenær stríðið nær til þeirra. Þau eru börn í Úkraínu.

Augu heimsins hafa verið á landinu síðustu daga, vikur og mánuði. Átökin hafa einkum verið bundin við austurhluta landsins en aðrir íbúar landsins hafa ekki komist hjá því að finna fyrir þeim. Margir hafa til að mynda komið til héraðsins Kirovograd, sem er inni í miðju landi, sem flóttamenn og hafa ekki mikið á milli handanna. Þar er hátt í 80% at­vinnu­leysi og fá­tækt afar mik­il.

Nú eiga enn fleiri um sárt að binda

Íslendingar hafa síðustu ellefu ár sent rúmlega 35 þúsund skókassa með jólagjöfum til Úkraínu. Neyðin var mikil þegar verkefnið Jól í skókassa hófst, en nú eiga enn fleiri um sárt að binda. Hópurinn sem stendur að verkefninu stefnir ótrauður að því að fara út með fullan gám af kössum í lok þess árs, að því gefnu að talið verði öruggt að fara til landsins.

Mjöll Þórarinsdóttir er ein þeirra sem hefur komið að verkefninu í mörg ár og hefur hún tvisvar verið í hópnum sem fer með kassana til Úkraínu. Hún segir söfnun ársins ekki formlega hafna en þeir tryggustu, sem alltaf gera kassa, eru þegar byrjaðir að undirbúa. Skiladagur í ár er 15. nóvember.

Kassarnir fara til barna og unglinga í Kirovograd, en þau dvelja til að mynda á munaðarleysingaheimilum, í fangelsum eða heima hjá fjölskyldu sinni. Mjöll rifjar upp eina heimsóknina í samtali við blaðamann mbl.is, en hún heimsótti unga karlmenn á aldrinum 15 til 18 ára í fangelsi.

Í illa lyktandi klefa allan sólarhringinn

„Þar dvöldu sex til átta fangar saman í klefa. Salernið er inni í klefanum og skilrúmið er aðeins um einn metri á hæð. Þú ert aldrei einn,“ segir Mjöll. Aðbúnaður í fangelsinu er slæmur og dvelja fangarnir í klefanum allan sólarhringinn.  Daginn sem hópurinn heimsótti fangelsið var ekki mjög kalt og því hægt að hafa gluggann í klefanum opinn. Mjöll segir að lyktin hafi þó verið viðbjóðsleg.

Ungu mennirnir áttu það allir sameiginlegt að hafa brotið af sér og dregur Mjöll ekki úr þeirri staðreynd. Hún bendir aftur á móti á að margir þeirra hafi fengið hefur þungar refsingar fyrir brot sem teljast ef til vill ekki svo alvarleg hér á landi.

Einhverjir þeirra höfðu hnuplað vespu og fengið fyrir það þriggja ára fangelsisdóm. „Þeir sjá enga framtíð fyrir sér. Þeir sitja krúnurakanir í klefanum allan daginn, þá ætti að hvetja til dáða og náms,“ segir Mjöll.

Krúnurakaðir ungir menn með tárin í augunum

Hópurinn var með kassa fyrir þennan aldurshóp en ákveðið var að gefa þeim ekki kassa heldur sælgætispoka sem keyptur var í Kirovograd. „Við höfðum áhyggjur af því að fangaverðirnir myndu taka kassann af þeim og láta þá aðeins fá hluta af innihaldi hans og fannst okkur það óþarfa álag á drengina,“ útskýrir Mjöll. „Sælgætið er eitthvað sem fangaverðirnir þekkja og taka ekki af þeim.“

Að lokum ræddi Ev­hen­iy Zhab­kovskiy, tengliður hópsins í Úkraínu, við mennina. Hann er prestur og formaður KFUM í landinu. „Hann ræddi við hvern og einn og hvatti þá til dáða,“ segir Mjöll og bætir við að greinilegt hafi verið að þetta skipti máli fyrir þá, þeir hafi margir verið með tárin í augunum þegar þeir kvöddu Ev­hen­iy.

Merkilegt að ókunnugir vilji gleðja börnin

Hópurinn hefur einnig heimsótt nokkur heimili síðustu ár. Þar eru börn sem eru veik og geta ekki komið á bókasafnið þar sem gjöfunum er venjulega útbýtt. „Þá sjáum við hvernig aðbúnaðurinn er hjá fólkinu og maður sér að börnin sem fá gjafirnar þurfa á smá gleði að halda. Einn kassi kostar ekki mikið, en hann gefur svo mikla gleði,“ segir Mjöll.

Hún segir að þakklæti foreldranna og barnanna hafi verið greinilegt en þeim fannst merkilegt að einhver, sem þekkti þau ekkert, hefði ákveðið að gefa þeim gjöf og vera góð við þau.

Þurfa uppörvun og gleði

Mjöll segir að flóttamönnum í héraðinu hafi fjölgað verulega í sumar. Margir hafa leitað til Ev­hen­iy og annarra presta á svæðinu og beðið um mat og aðrar nauðsynjavörur. Hann er eins og áður segir tengiliður hópsins og ákveður á hverju ári hvert skókassarnir fara. Gera má ráð fyrir að börn í hópi flóttamanna muni fá jólagjöf í skókassa þegar þeim verður úthlutað snemma á næsta ári.

Hópurinn tekur enga áhættu og fer ekki af stað nema ástandið sé öruggt. Gjafirnar hafa yfirleitt verið afhentir á jólunum í Úkraínu en jóladagur er þann 7. janúar.

Þetta hefur þó ekki alltaf gengið upp en árið 2013 voru gjafirnar afhentar í kringum páskana. Þá hafði ný ríkisstjórn tekið við í landinu og tók langan tíma að leysa út gáminn með kössunum.

„Í ár eru fleiri börn sem þurfa á uppörvun og gleði að halda. Þau þurfa hvíld frá óttanum,“ segir Mjöll og hvetur Íslendinga til að taka þátt í verkefninu eins og fyrri ár.

Jól í skókassa

Mjöll segir að í ár séu fleiri börn sem þurfa …
Mjöll segir að í ár séu fleiri börn sem þurfa á uppörvun og gleði að halda. Mynd/Jól í skókassa
Það er ávallt mikil gleði þegar börnin fá gjafirnar afhentar.
Það er ávallt mikil gleði þegar börnin fá gjafirnar afhentar. mynd/Jól í skókassa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert