Koma í veg fyrir klámkjaft

Frá Morfískeppni.
Frá Morfískeppni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Reyna á að rétta við orðspor Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi, Morfís, en það beið hnekki í fyrra þegar kvenkyns keppendur lýstu reynslu sinni af keppninni. Nýr formaður vill koma í veg fyrir kvenfyrirlitningu, klámkjaft og aðra óæskilega hegðun.

Í fyrsta skipti í um áratug er kvenkyns formaður við völd og kynjahlutföllin jöfn miðað við keppendur. Ný stjórn var kjörin á síðasta aðalfundi Morfís og hefur hún ákveðið að gera ýmsar breytingar á starfsháttum og venjum.

„Í kjölfar seinasta starfsár MORFÍs þar sem komu upp mál þar sem orðspor MORFÍs bar skaða að hafa ný lög verið samþykkt sem kveða um að hægt er að kæra til stjórnar MORFÍs alla þá óæskilegu hegðun sem getur komið upp á keppnum eða við undirbúning þeirra (sjá 34. gr MORFÍslaga). Þá getur stjórn MORFÍs vísað frá keppendum sem og þjálfurum og gripið þannig inní áður en frekari skaði er skeður. Þá er þjálfari gerður ábyrgður fyrir liði sínu.

Við viljum þannig koma í veg fyrir kvenfyrirlitningu, klámkjaft og annað slíkt sem á sér engan stað í ræðukeppni framhaldsskóla.

Þá verður gagngert tekið á þeirri óstundvísi sem hefur verið á keppnum og kapp lagt á að tímarammar gangi eftir en því hefur verið ábótavant hingað til.

Það er okkar markmið að hefja orðspor MORFÍs upp og fá aftur jákvæða umfjöllun fyrir að vera málefnaleg og skemmtileg keppni sem skólar geta stoltir tekið þátt í,“ segir í tilkynningu.

Frekari upplýsingar um nýju lögin má finna inná morfis.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert