Rekur risabú í eyðimörkinni

Lárus Ásgeirsson er í framkvæmdastjórn Almarai.
Lárus Ásgeirsson er í framkvæmdastjórn Almarai.

Bakgrunnur hjá Marel og Icelandic Group hefur reynst Lárusi Ásgeirssyni vel í störfum hans hjá fyrirtækinu Almarai sem rekur verksmiðjubúskap, sölu og markaðssetningu á mjólk og kjúklingum í Sádi-Arabíu. Lárus er í framkvæmdastjórn þessa risavaxna matvælafyrirtækis og stýrir kjúkingadeildinni. Samanburður við fyrirtæki á Íslandi er ekki beinlínis sanngjarn þar sem Almarai getur framleitt allt að 550 þúsund kjúklinga á dag og í kjúklingadeildinni starfa um 3.500 manns.

Það er í mörg horn að líta hjá framkvæmdastjóranum, sem unir hag sínum vel í Sádi-Arabíu. Hann segir starfið spennandi og gott sé að vinna hjá Almarai. Landið sé ríkt af olíuauðlindum og hagvöxtur mikill. Þjóðin ung og mikil áhersla sé lögð á menntun og að byggja upp þekkingu meðal ungra Sáda. Þannig geti þeir í fyllingu tímans tekið við stjónunarstörfum sem mjög algengt sé að Vesturlandabúar gegni nú. Sjálfur reiknar Lárus með að vera í landinu út næsta ár að minnsta kosti.

Geitamjólk hirðingjanna hefur vikið fyrir kúamjólkinni

Það er ekki aðeins kjúklingaframleiðslan sem er umfangsmikil hjá Almarai því fyrirtækið er stórtækt á mörgum fleiri sviðum matvælaframleiðslu og framleiðsla fyrirtækisins á mjólk og mjólkurafurðum hefur vakið heimsathygli. Geitamjólk hirðingjanna hefur vikið fyrir kúamjólkinni og í ísskápum hvarvetna á heimilum í eyðimörkinni eru mjólkurflöskur, ostastykki og ýmsar jógúrtafurðir sem Almarai framleiðir úr mjólk frá 15 risabúum á nokkrum svæðum nálægt höfuðborginni Riyadh.

„Fyrirtækið er stærsta matvælafyrirtæki í Mið-Austurlöndum og langstærst í mjólkurvörum með um 130 þúsund mjólkandi kýr,“ segir Lárus, en á Íslandi má áætla heildarkúafjöldann hátt í 30 þúsund.

„Í upphafi starfsemi sinnar árið 1977 var Almarai með 300 kýr, en nú eru að lágmarki 7.500 mjólkandi kýr á hverju búi. Þær ganga lausar í eyðimörkinni og sækja fóður, vatn, loftkælingu, skjól og skyggni fyrir sólinni í opin fjós eða fóðurgarða. Þær eru mjólkaðar fjórum sinnum á sólarhring og skila vel yfir tvöfaldri meðalnyt íslensku kýrinnar.

Um 15% vöxtur hefur verið á ári í mjólkurframleiðslu fyrirtækisins og til að tryggja nægt hey fyrir skepnurnar hefur Almarai fest kaup á jörðum í Argentínu, Bandaríkjunum og víðar. Gras er ræktað í þessum löndum og flutt til Sádi-Arabaíu, en til dæmis frá Argentínu er um 7.900 sjómílna leið að fara.“

Grunnvatn úr borholum

Í allri starfseminni notar Almarai grunnvatn sem borað er eftir fyrir skepnur og hreinsar það eftir þörfum. Vatn til áveitu er einnig grunnvatn úr borholum, en yfirlýst stefna Almarai, í anda þess að varðveita grunnvatnsyfirborð, að flytja inn allt hey fyrir kýrnar. Fyrirtækið er einnig með döðlu- og ólífurækt og þar er einnig notað grunnvatn úr borholum. Fóður er gefið á garða sem kýrnar éta úr.

Dýravelferð er ofarlega á blaði, að sögn Lárusar. Kýr ganga lausar og kjúklingar eru aldir í stórum húsum þar sem þeir hlaupa um á gólfinu og engin búr eru notuð. Til að fá góða nyt og góðan vöxt þarf skepnunum að líða vel.

Á stórbúunum fyrir kýrnar eru mjólkaðar 200 kýr í einu og kerfið er hálfsjálfvirkt, starfsmenn setja mjaltatæki á spenana, en eftir það tekur sjálfvirk tæknin við. Mjólkurvinnslan er af fullkomnustu gerð, alsjálfvirk og gæðin á við það besta sem þekkist.

Metnaðarfull uppbygging

Aftur að kjúklingaframleiðslunni og störfum Lárusar hjá Almarai. Eftir að hafa verið í fylkingarbrjósti hjá Marel í tæp 20 og síðan forstjóri Sjóvár og Icelandic Group frá 2009 þar til í ársbyrjun 2013 segist Lárus hafa verið hikandi fyrst í stað þegar honum var boðið til viðræðna við forstjóra Almarai í London.

„Ég viðurkenni að í mínum fyrri störfum tók ég sveig framhjá Mið-austurlöndum og fann áhugaverð viðskipti annars staðar,“ segir Lárus. „Eftir fundinn í London var mér boðið að skoða aðstæður í Sádi-Arabíu og þá fyrst áttaði ég mig á stærð, umfangi og framtíðarsýn félagsins, sem er skráð á markað hér og í eigu fjölmargra aðila.

Mér var boðið að taka yfir kjúklingadeild fyrirtækisins og hóf störf um mitt síðasta ár. Ég bjó að reynslu frá störfum mínum hjá Marel og Icelandic og hafði innsýn í matvælaframleiðslu, sölu og dreifingu.

Uppbygging á kjúklingaframleiðslunni hafði verið mjög metnaðarfull og hefur verið fjárfest fyrir yfir 160 milljarða króna á fjórum árum. Starfsemin tekur til allrar virðiskeðjunnar frá hænum til eggjaframleiðslu, útungunar, fóðurstöðva, eldishúsa, sláturhúsa, vinnslu, sölu og dreifingar í fjórum löndum. Framleiðslugetan er nú 550 þúsund kjúklingar á dag, bæði í slátrun og til eldis, en í útungunarstöðvum er hægt að meðhöndla 300 milljónir eggja á ári. Fyrirtækið selur hins vegar ekki egg á neytendamarkaði.

Höfuðstöðvarnar eru í höfuðborginni Riyadh, en meginstarfsemi okkar er nálægt bænum Hail. Í verksmiðjunni er nýjasta tækni og ég veit ekki til þess að nokkur önnur verksmiðja í heiminum sem starfrækt er í dag hafi sambærileg afköst.

Floti um 500 kældra bíla til 14 þúsund viðskiptavina

Í kjúklingum er fyrirtækið með stærstu markaðshlutdeild í ferskum kjúklingum í Sádi-Arabíu og dreifir allri sinni framleiðslu sjálft undir vörumerkinu Alyoum, sem merkir Í dag. Við erum með 25 dreifingarstöðvar, 20 í Sádi-Arabíu og einnig í Kuwait, Bahrein, Quatar og Sameinuðu furstadæmunum. Floti um 500 kældra bíla keyrir vöruna, sem öll er seld fersk, til nærri 14 þúsund viðskiptavina á hverjum degi.“

Auk mjólkur, mjólkurafurða og kjúklinga selur Almirai allar tegundir af ávaxtasafa, rekur nokkur bakarí og verksmiðju sem framleiðir ungbarnamjólk. Einnig á þessum sviðum er fyrirtækið stórtækt.

„Forstjórinn er Sádi, mjög öflugur maður, en meirihluti starfsmannahópsins er erlendur,“ heldur Lárus áfram. „Mikið af stjórnunarliðinu er Vesturlandabúar, en fólk frá Asíu er hins vegar áberandi í fjármálum fyrirtækisins og í tækni, sölu og almennum verkamannastörfum.

Framtíðin er að mennta heimamenn til að þeir geti leitt þessi fyrirtæki. Hér er mikill hagvöxtur og hröð uppbygging mannvirkja og í olíuiðnaðinum. Svo vilja þeir verða enn sjálfbærari í matvælavinnslu og hluti af því er fyrirtæki eins og Almarai sem reynir að uppfylla þær þarfir,“ segir Lárus.

Lárus Ásgeirsson rekur risabú í eyðimörkinni.
Lárus Ásgeirsson rekur risabú í eyðimörkinni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert