Minningu franskra sjómanna haldið á lofti

„Veru franskra sjómanna á Vestfjörðum hefur lítið verið haldið á lofti,“ segir Hildur Inga Rúnarsdóttir, sóknarprestur á Þingeyri, en í júlí síðastliðnum lauk endurbótum á grafreit franskra sjómanna í Haukadal, sem Hildur Inga hafði forgöngu um. Garðurinn var gerður árið 1937, að undirlagi Sigurðar Z. Gíslasonar, prests á Þingeyri, sem fékk fjármuni frá franska ríkinu til verksins. Endurbæturnar voru m.a. kostaðar af franska ríkinu og borgaryfirvöldum í Paimpol, þaðan sem sjómennirnir komu, en þau gáfu nýjan kross í garðinn. Þá segir Hildur Inga að ekki hefði orðið af verkefninu nema fyrir stuðning og aðstoð íbúa á Þingeyri og nágrenni.

„Það var s.s. presturinn hérna og tveir bændur; Bjarni Guðmundsson á Kirkjubóli og Jón Guðmundsson í Höll í Haukadal, ásamt sonum sínum, sem sáu um að steypa garðinn. Og það voru nokkrar stúlkur úr Haukadal, á aldrinum 15-19 ára, sem gerðu grafreitinn í raun að skrúðgarði. Þær báru alla moldina í fötu í garðinn og fengu Jón í Höll til að róa með sig yfir í Skrúð, fyrsta skrúðgarðinn á landinu, til sr. Sigtryggs Guðlaugssonar, og fengu hann til að gefa sér reyniplöntur og skrautjurtir,“ segir Hildur Inga.

Hildur Inga segir óvíst hversu margir sjómenn hvíla innan garðsins en vitað er um eina gröf rétt fyrir utan hann og a.m.k. 16 í nálægu holti. Hún segir umsvif Frakka í Dýrafirði hafa verið meiri en margur gerir sér grein fyrir. „Þeir vildu reisa spítala hér og koma upp fiskverkun þannig að það væri starfsemi hér allt árið. Þeir vildu heilsársviðveru og þá hefðu einhverjir flutt með til að sinna því, og það var reiknað með störfum fyrir 400-500 manns,“ segir hún en hugmyndirnar mættu mikilli andstöðu á Íslandi.

Hildur Inga segir fulla ástæðu til að halda þessu tímabili í sögunni á lofti og segir Maríu Óskarsdóttur hafa unnið mikið og gott starf þar að lútandi, en hún hefur m.a. skrifað bók um franska sjómenn á Íslandi.

Nánara samfélag

Hildur Inga var skipuð í embættið á Þingeyri 2012 en hafði áður sinnt afleysingum, m.a. á Fáskrúðsfirði, Skinnastað og í Þorgeirskirkju. Auk þess að vera sóknarprestur er hún héraðsprestur fyrir Vestfirði en hún segir starf sveitaprestsins eilítið frábrugðið því sem gengur og gerist í höfuðborginni.

„Það er miklu nánara samfélagið hérna. Ég veit t.d. þegar einhver deyr, það er ekki einhver ókunnug manneskja sem hringir í mig og segir mér að einhver hafi látist,“ segir hún. Þá segir hún fólk leita til sín varðandi ólíklegustu mál. „Það hefur kannski bara engan annan. Þegar það er ekkert eftir í samfélaginu nema kannski presturinn, hvert ætlar þú þá að leita? Ég hef t.d. setið og aðstoðað manneskju við að sækja um vegabréfsáritun til Ameríku. Er þetta eitthvað sem sóknarpresturinn gerir? Nei, kannski ekki. En manneskjan þurfti aðstoð og þetta var eini staðurinn sem henni datt í hug að hún gæti fengið aðstoð,“ segir Hildur Inga.

Hleypti illu blóði í fólk

Hildur Inga segir stundum einmanalegt að vera eini presturinn á staðnum en hún situr ekki auðum höndum heldur sinnir barna- og unglingastarfi og þjónustu við eldri borgara til viðbótar við messuhaldið. Þá segir hún kórstarfið við kirkjuna öflugt og kirkjusóknina góða. „Miðað við það að í þessari sókn erum við kannski ekki nema 30, þá mæta kannski 50 manns í messu,“ segir hún, en það teljist bara ansi gott.

Meðal íbúanna er stærsti aldurshópurinn 45-64 ára að sögn Hildar Ingu og sá næststærsti 65 ára og eldri. Líkt og víðar á landsbyggðinni er unga fólkið í minnihluta. „Það er því miður þannig að ef fólk fer í burtu og menntar sig þá kemur það ekki heim til að vinna í fiski. Og þótt þú viljir koma heim og vinna í fiski þá er það ekki öruggt,“ segir hún.

Hildur Inga segir að sú ákvörðun útgerðarfyrirtækisins Vísis að loka starfstöð sinni á Þingeyri hafi verið stórt kjaftshögg fyrir lítið þorp. Þá hleypti það illu blóði í fólk að fyrirtækið skyldi bjóða upp á hreppaflutninga. „Það var afskaplega sárt út af þessum ummælum, að fólk gæti bara farið suður; það væri ekkert mál að setja það upp í rútu og keyra það í frystihúsið þar,“ segir hún. „Lífið er meira en vinna. Þetta er heimilið þitt og margir starfsmenn hér í Vísi eiga fullorðna foreldra. Á bara að skilja þá eftir? Hver á að hugsa um þá? Fólk á börn, fjölskyldu, húsnæði og fjárhagslegar skuldbindingar,“ segir hún. Fólk haldi hins vegar enn í vonina um að ákvörðunin verði dregin til baka en varðandi atvinnuástandið almennt segir Hildur Inga alltaf ástæðu til bjartsýni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert