Alvarlegt brot gegn fjarskiptalögum

Póst- og fjarskiptastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að eignarhaldsfélagið IceCell hafi brotið alvarlega gegn lögum um fjarskipti með því að framselja tiltekin númeraréttindi til fjarskiptafyrirtækisins iCell. Í ljósi alvarleika framangreindra brota hefur Póst- og fjarskiptastofnun afturkallað öll númeraréttindi IceCell.

„Þann 30. apríl 2014 barst Póst- og fjarskiptastofnun ábending um að farsímanúmeraraðirnar 652 XXXX og 642 XXXX, sem árið 2007 var úthlutað til IceCell ehf., kt. 420407-0330, hafi með tilkynningu til valdra aðila innan GSMA (fr. Groupe Speciale Mobile Association) verið færðar yfir á nafn og kennitölu iCell ehf., kt. 540710-1200. Átti þetta jafnframt við um talsímanúmeraröðina 536 XXXX sem auk þess var tilkynnt fyrir farsímaþjónustu. Þá liggur fyrir að IceCell ehf. hefur ekki greitt lögboðin afnotagjöld af framangreindum númerum síðastliðin ár.

Með ákvörðun sinni í dag nr. 22/2014 kemst Póst- og fjarskiptastofnun að þeirri niðurstöðu að IceCell ehf., kt. 420407-0330, hafi brotið alvarlega gegn lögum um fjarskipti nr. 81/2003 með því að framselja tiltekin númeraréttindi til fjarskiptafyrirtækisins iCell ehf. kt. 540710-1200. Í fyrsta lagi varðar ólögmætt framsal númera og kóða brot gegn 2. mgr. 7. gr. laganna. Í öðru lagi felur tilkynning, um að nota eigi talsímanúmer fyrir farsímaþjónustu, í sér brot gegn a.- lið skilmála í úthlutunarbréfi fyrir talsímanúmer, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Í þriðja lagi varða vangoldin númergjöld brot gegn skilmála e.-liðar um úthlutun farsímanúmera og f.-liðar um úthlutun talsímanúmera, dags. 11. júlí 2007, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna, auk þess sem það brýtur gegn 3. mgr. 14. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun.

Í ljósi alvarleika framangreindra brota hefur Póst- og fjarskiptastofnun afturkallað öll númeraréttindi IceCell ehf. Um er að ræða farsímanúmeraraðirnar 652 XXXX og 642 XXXX og talsímanúmeraröðina 536 XXXX, auk þeirra kóða sem úthlutað var til IceCell ehf. með bréfi dags. 11. júlí 2007. Byggist afturköllun þessi á heimild í 5. mgr. 73. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003. Enn fremur hyggst Póst- og fjarskiptastofnun kæra umrædd brot til lögreglu,“ segir á vefsvæði Póst- og fjarskiptastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert