„Endalausar hræringar“ fyrri ríkisstjórnar

Bjarni Benediktsson, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Í núverandi ríkisstjórn sitja níu ráðherrar. Það er sama fólkið og tók við fyrir rétt rúmu ári síðan,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, við upphaf máls í óundirbúnum fyrirspurnatíma sem fram fór á Alþingi í dag.

Benti hann á að ein breyting hafi verið gerð á núverandi ríkisstjórn Íslands, með forsetaúrskurði þann 26. ágúst síðastliðinn, þegar forsætisráðherra tók við sex málaflokkum og gegnir nú einnig embætti dómsmálaráðherra. 

„Ráðuneytinu hefur ekki verið skipt upp. Þessi tilhögun er í fullkomnu samræmi við ákvæði stjórnarskrár og lögum um stjórnarráð Íslands,“ sagði Bjarni í þingsal og benti á að ekki væri nú úr vegi að rifja upp stjórnarhætti síðustu ríkisstjórnar.

„Þar sátu 15 ráðherrar. Af þessum 15 sátu einungis tveir allan tímann í sama ráðuneytinu undir sama heiti,“ sagði Bjarni en það eru þau Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra.

„Þrír voru fjármálaráðherrar. Þrír gegndu embætti ráðherra í heilbrigðisráðuneytinu, sem síðar varð að velferðarráðuneyti. Tveir voru dómsmálaráðherrar, en það ráðuneyti rann síðan saman við önnur ráðuneyti. Tveir voru efnahags- og viðskiptaráðherrar og svo framvegis. Menn þekkja þessa sögu, endalausar hræringar.“

Stjórnarhættir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur endurspegla því ekki það sem kalla má stjórnfestu innan stjórnarráðs Íslands að sögn Bjarna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert