Fyrstu iPhone 6 komnir til landsins

iPhone 6 Plus handleikinn við röðina í morgun.
iPhone 6 Plus handleikinn við röðina í morgun. facebook.com/isiminn

Enn er ekki ljóst hvenær iPhone 6 og iPhone 6 Plus mun formlega fara í sölu hér á landi en nokkrir einstaklingar sem skráðu sig á lista í forsölu hjá iSímanum munu þó geta fengið gripinn í hendurnar í dag. 

Útsendarar iSímanns hafa lagt það í vana sinn að standa í röð fyrir utan verslanir í Bretlandi nóttina áður en sala hefst á nýjustu iPhone símunum. Engin undantekning var þar á að þessu sinni og mætti Tómas Kristjánsson, eigandi iSímanns í röð við eina af verslunum Apple í London ásamt öðrum útsendara verslunarinnar í nótt.

„Þú ert fyrsta símtalið mitt í iPhone 6,“ sagði Tómas þegar blaðamaður náði tali af honum í morgun. „Þetta var svaka stemmning. Það voru einhverjir búnir að bíða í nokkra daga og voru bara í tjaldi fyrir utan búðina en svo náði röðin eftir allri götunni meðfram búðinni og inn í einhvern garð rétt hjá,“ sagði Tómas sem gat sér til um að um 2000 manns hafi staðið í röðinni í allt. 

Tómas er ýmsu vanur úr raðabransanum en upplifði þó í fyrsta sinn þrumur og eldingar í röð klukkan þrjú í nótt. Þrátt fyrir lítinn svefn bar hann sig vel og sagðist enn nógu ungur til að standa í svona einu sinni á ári.  

Þrátt fyrir að enn sé óljóst hvenær símarnir berast til landsins fyrir almenna sölu hefur Síminn nú birt verðlista fyrir iPhone 6 og iPhone 6 Plus og munu símarnir kosta frá 119.900 krónu og upp í 169.900 krónur.

Vel var tekið á móti hverjum og einum kaupanda þegar inn í verslunina var komið og sjá má myndband af fagnaðarlátunum þegar Tómas kom inn hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert