Íslendingar hjálpa Norðmönnum að sofa

Fjölmargir Íslendingar nýta sér meðferð Betri svefns, sem hefur sýnt …
Fjölmargir Íslendingar nýta sér meðferð Betri svefns, sem hefur sýnt árangursríkar niðurstöður. mbl.is

„Þetta er ótrúlega spennandi og skemmtilegt. Það eru strax margir búnir að skrá sig og fullt af fyrirspurnum komnar,“ segir Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og stofnandi fyrirtækisins Betri svefn, sem nú hefur opnað fyrir netmeðferð við svefnleysi í Noregi.

Fyrirtækið Betri svefn var stofnað hér á landi árið 2013 sem svar við lélegu aðgengi almennings að meðferð við svefnleysi. Erla, sem er sálfræðingur með sérhæfingu í greiningu og meðhöndlun svefnvandamála ásamt Gunnari Jóhannssyni og Steindóri Ellertssyni læknum setti á laggirnar sérhæfða sálfræðimeðferð við svefnleysi í gegnum heimasíðuna www.betrisvefn.is. Jafnframt stendur Hálfdan Steinþórsson, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri Gomobile að verkefninu. Mikið hefur verið rætt um óhóflega notkun svefnlyfja á Íslandi en skortur hafði verið á góðum úrræðum fyrir þá fjölmörgu sem glíma við langvarandi svefnleysi að sögn Erlu. 

Fjölmargir Norðmenn byrjaðir að nýta sér íslenskt hugvit

Stefnt að því að opna einnig fyrir meðferðina í Danmörku og Svíþjóð á næstunni. „Við horfðum á Norðurlöndin bæði því við eigum góða samstarfsmenn þar og líka vegna þess að þar er mikil umræða um mikla svefnlyfjanotkun og lélegt aðgengi að öðrum árangursríkum lausnum,“ segir Erla.

Fremstu sérfræðingar Noregs í rannsóknum og meðhöndlun á svefnleysi koma að norsku netmeðferðinni og nú þegar eru fjölmargir Norðmenn byrjaðir að nýta sér íslenskt hugvit til þess að bæta svefninn á nýrri síðu, www.somnify.no. „Við erum með rosalega flotta vísindamenn með okkur í þessu. Eins konar „herra svefn“ í Noregi er með okkur og það skiptir miklu máli. Hann er andlit síðunnar þarna úti og var stór liður í þessari ákvörðun.“

Mikill áhugi er fyrir lyfjalausri meðferð við svefnleysi í Noregi en þar er aðgengi að lyfjalausum meðferðum hinsvegar takmarkað. Erla segir dæmi vera um það að sjúklingar fljúgi vikulega til Bergen úr smærri bæjum til þess að sækja meðferð sérfræðinga, sem aðeins er veitt í stærstu borgunum. Því er mikil þörf fyrir meðferð sem hægt er að nálgast hvar sem er og hvenær sem er að sögn Erlu.

„Þetta er algjör bylting“

Meðferð Betri svefns byggir á hugrænni atferlismeðferð sem er að sögn Erlu árangursríkasta lausn sem völ er á við langvarandi svefnleysi. Meðferðin fer öll fram á netinu þar sem skjólstæðingar fá aðgang að sínu svæði, halda daglega svefnskráningu, fá vikulega fræðslu frá sálfræðingi og geta spjallað við aðra notendur síðunnar á lokuðu spjallsvæði. Þróuð hefur verið gervigreind sem les úr svefnskráningu skjólstæðinga og gefur einstaklingsbundna ráðgjöf um svefntíma og svefnvenjur.

Rannsókn á árangri meðferðarinnar sýnir að hún ber svipaðan árangur og hefðbundin sálfræðimeðferð. Notendur stytta tíma sem tekur þá að sofna um helming og vakna mun síðar upp um nætur, auk þess minnkar svefnlyfjanotkun um 31%.

„Þetta er algjör bylting,“ segir Erla. „Bæði vísindasamfélagið og þeir sem eru að glíma við svefnvanda hafa sýnt þessu mikill áhuga. Þetta er mjög gott meðferðartól en svo er þetta líka mikilvægt í alþjóðlegum rannsóknum á meðferðum við svefnvandamálum.“

Erla Björnsdóttir, sálfræðingur með sérhæfingu í greiningu og meðhöndlun svefnvandamála.
Erla Björnsdóttir, sálfræðingur með sérhæfingu í greiningu og meðhöndlun svefnvandamála. Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert