Selja sæti í flug yfir gosstöðvarnar

„Það er greinilegt að fólk hefur áhuga á þessu,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands sem mun á morgun bjóða upp á útsýnisflug yfir gosstöðvarnar. Flogið verður yfir jarðeldana norðan Vatnajökuls og ólgandi hraungosið skoðað úr öruggri fjarlægð. Jarðfræðingur lýsir því sem fyrir augu mer á meðan flogið verður yfir svæðið í 45 mínútur. 

„Við byrjuðum sölu í morgun og hún gengur mjög vel svo við erum nokkuð ánægð með viðtökurnar,“ segir Árni, en einungis er selt í gluggasæti vélarinnar. „Við ákváðum að selja bara gluggasæti svo allir væru með eins gott útsýni og hægt er,“ segir Árni. Gluggasætin eru 25 talsins, og hefur nú þegar verið selt í meira en helming þeirra. 

„Það er töluverður áhugi á þessu greinilega og það er skemmtilegt að sjá að þetta er blanda af Íslendingum og útlendingum,“ segir Árni. Hann segir vel koma til greina að fleiri sambærileg flug verði farin, haldi áhuginn áfram að vera mikill.

Flogið verður á morgun klukkan 16.00, og kostar sætið 49.990 krónur.

Uppfært kl. 20.07. 

Vegna mikillar eftirspurnar bætti flugfélagið við öðru flugi. Brottför er frá Reykjavíkurflugvelli kl. 13 í flugið en mæta þarf á völlinn kl. 13.30. Flugið kostar 49.990 krónur, líkt og hitt útsýnisflugið sem fjallað var um á mbl.is fyrr í dag og hér að ofan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert