Eining um samgöngumál á Vestfjörðum

mbl.is/Hjörtur

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, telur samgöngumál á Vestfjörðum með brýnustu samgöngumálum á landinu. Þetta sagði hún í sérstakri umræðu um samgöngumál á þingfundi Alþingis, sem hófst klukkan 3 í dag.

Ýmsir þingmenn tóku til máls í umræðunni og var mikill samhljómur um málið. Talað var um þann stóra vanda sem felst í því að á sunnanverðum Vestfjörðum komist fólk ekki vega sinna stóran hluta ársins og þurfi að vera án bundins slitlags á ákveðnum svæðum.

Málshefjandi var Ólína Þorvarðardóttir og talaði hún um þann harða og illleysanlega hnút sem samgöngumál á Vestfjörðum eru í. Skipulagsstofnun ákvað á dögunum að fallast ekki á tillögu Vegagerðarinnar vegna nýrrar veglínu um Teigsskóg. Telur Skipulagsstofnun að ný veglína sé of lík þeirri veglínu sem Hæstiréttur sló út af borðinu árið 2009.

Innanríkisráðherra var til andvara og sagðist hún taka undir með heimamönnum, en þingið stæði frammi fyrir stjórnsýsluflækju um þetta einfalda mál. Hún sagði niðurstöðu Skipulagsstofnunar mikil vonbrigði, og telur að skoða þurfi sérstaka lagasetningu. Að hennar sögn þola úrbætur á veginum um Gufudalssveit ekki frekari bið.

Ráðherra sagði þrjár leiðir mögulegar í málinu fyrir þingið. Í fyrsta lagi væri það að kæra niðurstöðu Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, líkt og Vegagerðin hyggst gera. Önnur leið væri að óska eftir endurupptöku málsins vegna breyttra forsenda, og sagði ráðherra þá leið geta tekið skemmri tíma en búist hefur verið við. Þriðja mögulega leiðin væri að setja ný lög til að heimila veglínu um Teigsskóg.

Þá var einnig talað um Dýrafjarðargöng og heilsársveg yfir Dynjandisheiði. Ráðherra benti á það að göngin væru á samgönguáætlun og samkvæmt henni muni framkvæmdir hefjast árið 2016 og ljúka árið 2019. Hún sagði mikilvægt að tryggja það að Vestfirðingar sætu við sama borð og íbúar annarra landshluta hvað varðar samgöngur.

Ráðherra hyggst funda með þingmönnum allra flokka á svæðinu á morgun. Þá mun hún hitta íbúa á svæðinu og vinna málið í samvinnu við heimamenn.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert