Íranskur teppasölumaður lagði ríkið

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag úr gildi úrskurð velferðarráðuneytisins frá 5. desember 2013 um að synja írönskum ríkisborgara um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi. Maðurinn hefur selt austurlenskar vörur hér á landi síðustu þrjú ár, þar á meðal persnesk teppi. Jafnframt var felld úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar sama efnis frá 13. maí 2013.

Maðurinn kom hingað til lands sem námsmaður árið 2011 og fékk dvalarleyfi sem slíkur. Síðar sama ár keypti hann fyrirtæki af Logos lögmannsstofu og tók sæti í stjórn þess, auk þess að vera skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Eftir kaup mannsins á fyrirtækinu fékk það nýtt nafn, og þann tilgang að flytja inn vörur hingað til lands og selja. Maðurinn hefur aðallega flutt inn ýmiss konar silki og teppi frá Austurlöndum, sem og döðlur, hnetur og fleiri matvæli.

Í mars á seinasta ári synjaði Vinnumálastofnun manninum um atvinnuleyfi hér á landi. Málið var kært til velferðarráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í báðum tilvikum kom fram að ekki þyrfti sérþekkingu til að selja persnesk teppi eða vörur frá Austurlöndum.  

Í úrskurði dóms Héraðsdóms Reykjavíkur kemur hins vegar fram að sérþekkingu þurfi til að meta slík teppi og í upprunaríkjum þeirra sé hægt að leggja stund á sérstakt nám til að stunda viðskipti með þau svo öruggt sé. Þá kemur fram að maðurinn hafi sérþekkingu á persneskum, handgerðum teppum. Hann hafi meðal annars vottorð frá Landsamtökum í Íran á sviði handgerðra teppa sem staðfesti að hann hafi lagt stund á og lokið námi sem skapi honum réttindi til þess að meðhöndla slíka vöru.

Héraðsdómur segir að hvorki Vinnumálastofnun né velferðarráðuneytið hafi gert sér grein fyrir því hversu margbreytileg að gerð og uppruna persnesku teppin séu, sem ráði mestu um verðmæti þeirra.

Héraðsdómur gerði íslenska ríkinu að greiða íranska ríkisborgaranum 300 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert