Von á erindi sökum símhleranna

„Við eigum von á erindi frá ráðherra sem varðar þessar símhleranir,“ segir Eiríkur Tómasson, dómari við Hæstarétt Íslands, sem jafnframt er formaður réttarfarsnefndar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra, kvaðst fyrir skemmstu ætla að senda réttarfarsnefnd erindi þar sem óskað væri eftir því að nefndi færi yfir það hvort sérstakur saksóknari hafi farið að lögum og reglum varðandi símhleranir. Sigmundur útilokar jafnframt ekki, ef að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd telji það þarft, að komið verði á fót sérstakri rannsóknarnefnd til að komast til botns í málinu.

Fellur undir verksvið réttarfarnsnefndar

Á vef innanríkisráðuneytisins kemur fram að réttarfarsnefnd er fastanefnd skipuð af innanríkisráðherra sem hefur það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar á sviði réttarfars. Helstu verkefni nefndarinnar eru að vera innanríkisráðherra til ráðgjafar um samningu frumvarpa og annarra reglna á sviði réttarfars, semja frumvörp og aðrar reglur að beiðni ráðherra á því sviði og í samræmi við áætlun og áherslur ráðherra, auk þess sem nefndinni er ætlað að veita umsagnir um frumvörp og aðrar tillögur er varða réttarfar.

„Þetta fellur undir þessi tvö fyrri atriði, semja frumvörp eða veita ráð við samningu frumvarpa. Það er okkar meginhlutverk og hefur verið allar götur síðan þessi nefnd var sett á stofn. Ég vil þó ekkert tjá mig frekar um þetta einstaka mál áður en nefndinni hefur borist erindið. Þetta mun þó að öllum líkindum liggja fyrir í lok vikunnar,“ segir Eiríkur að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert