Auðlegðarskattur til byggingar spítala

Tillaga að nýjum Landspítala samkvæmt kynningu á drögum að deiliskipulagi …
Tillaga að nýjum Landspítala samkvæmt kynningu á drögum að deiliskipulagi nýs Landspítala 30.08.2011. Ljósmynd/Nýr Landspítali

Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um Byggingarsjóð Landspítala. Frumvarpið felur í sér að nýbyggingar fyrir Landspítala Háskólasjúkrahús verði fjármagnaðar með því að leggja á tímabundinn auðlegðarskatt sem renni í sérstakan Byggingarsjóð Landspítala.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að auðlegðarskatturinn verði lagður á í fimm ár, 2016-2020, og ætla megi að það fé sem safnist með þessu móti dugi til spítalabyggingar í samræmi við þau áform sem nú eru uppi.

„Þessi lausn á fjármögnun nauðsynlegrar uppbyggingar á þjóðarsjúkrahúsi Íslendinga felur það í sér að kostnaður vegna hennar leggst af meiri þunga á efnameiri Íslendinga heldur en þá sem minna hafa af efnalegum gæðum. Fyrri álagning auðlegðarskatts mætti gagnrýni fyrir það að vera full íþyngjandi fyrir þá af greiðendum hans sem áttu stóran hluta þeirrar eignar sem myndaði skattstofninn í formi íbúðarhúsnæðis til eigin nota en höfðu ef til vill aðeins takmarkaðar tekjur. Við þessu er nú brugðist með því að sett er inn frímark vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Ekki þarf að fjölyrða um nauðsyn þess að grípa til markvissra aðgerða til að fjármagna uppbyggingu Landspítala-Háskólasjúkrahúss, enda ljóst að í óefni er komið með fjármögnun þess. Frumvarp um Byggingarsjóð Landspítala er ætlað að högga á þennan hnút með því að nýta skatttökuleið sem mikill stuðningur er við í samfélaginu,“ segir í tilkynningu frá þingmönnum VG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert