Fjölmörg fíkniefnabrot

Fjölmörg fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Bæði akstur undir áhrifum fíkniefna, varsla fíkniefna og framleiðsla á fíkniefnum.

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í Kópavogi í gærkvöldi en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og akstur án ökuréttinda. Maðurinn hefur ítrekað verið stöðvaður við akstur bifreiðar en hefur aldrei öðlast ökuréttindi.  Maðurinn er einnig kærður fyrir vopnalög, vörslu fíkniefna og sölu fíkniefna.

Tveir menn voru handteknir í Grafarholti grunaðir um akstur bifreiða undir áhrifum fíkniefna síðdegis í gær.  Mennirnir komu akandi á vettvang þar sem þeir voru að sækja aðra bifreið.  Báðir mennirnir eru grunaðir um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og var annar þeirra einnig sviptur ökuréttindum.

Eins voru höfð afskipti af nokkrum mönnum sem voru með fíkniefni á sér í gær og í nótt. Einn þeirra er grunaður um ýmis fíkniefnabrot og var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

 Maður var handtekinn í Kópavogi grunaður um framleiðslu / ræktun fíkniefna síðdegis í gær.  Maðurinn vistaður í fangageymslu meðan málið var unnið og var síðan látinn laus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert