Drengurinn kominn af gjörgæslu

Pilturinn var útskrifaður af gjörgæsludeild LSH um helgina. Hann liggur …
Pilturinn var útskrifaður af gjörgæsludeild LSH um helgina. Hann liggur nú á barnadeild spítalans. mbl.is/ÞÖK

Níu ára gamall piltur sem brenndist þegar kviknaði á neyðarblysi í Brekkubæjarskóla á Akranesi er á batavegi. Hann var útskrifaður af gjörgæsludeild Landspítalans á laugardag og er nú á barnadeild. Rannsókn lögreglunnar á Akranesi lauk um helgina.

Atvikið átti sér stað 22. september sl. Um morguninn var pilturinn ásamt bekkjafélögum sínum á leiðinni úr skólanum yfir í sundlaug þegar þeir finna blysið þar sem það lá á göngustíg skammt frá skólanum.

Jón H. Ottósson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Akranesi, segir að pilturinn sem brenndist hafi ásamt tveimur öðrum verið skoða blysið en þeir hafi ekki haft hugmynd um það sem þeir voru með í höndunum. 

Blysið var brotið þegar þeir fóru með það í skólann og var plasthlíf farin af því. Pilturinn stakk blysinu í vasann og að sögn Jóns var pilturinn að öllum líkindum að fikta í spottanum þegar eldurinn kviknaði. Hann hlaut annars til þriðja stigs bruna á um 15% líkamans. 

Að sögn Jóns er pilturinn á batavegi.

Aðspurður segir hann að lögreglan viti ekki hvaðan blysið komi. Engar merkingar hafi verið á blysinu, en ljóst sé að um bátablys sé að ræða sem er að finna um borð í öllum bátum. Hann segir að rannsókn málsins hafi lokið um helgina en þeir sem hafa upplýsingar um málið eru aftur á móti beðnir um samband við lögregluna á Akranesi í síma 444-0111.

Jón segir afar mikilvægt að menn gangi vel frá svona blysum sem geti verði stórhættuleg í höndum barna og þeirra sem kunni ekki að meðhöndla þau rétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert