Aðeins karlar á jafnréttisráðstefnu Íslands

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland mun halda ráðstefnu um jafnréttismál í New York í janúar þar sem aðeins körlum verður boðið að taka þátt.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tilkynnti um ráðstefnuna þegar hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Ræddi Gunnar mikilvægi þess að ríki heims tryggi áframhaldandi árangur í baráttunni gegn fátækt og ójafnræði í ræðu sinni.

Í ræðunni ítrekaði Gunnar Bragi mikilvægi þess að ríki heims framfylgi þeim ákvörðunum sem teknar voru á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking árið 1995. Ráðstefna sú þykir söguleg en þar lýsti Hillary Clinton, þáverandi forsetafrú meðal annars því yfir að kvennréttindi væru mannréttindi.

 Í ræðu sinni sagði Gunnar Bragi karlaráðstefnuna vera einstakt framlag til viðburða sem ætlað er að fagna því að 20 ár séu liðin frá kvennaráðstefnunni. Málþingið mun hluti af herferð UN Women, HeForShe sem leikkonan Emma Watson hleypti af stokkunum í síðustu viku með eftirminnilegri ræðu í allsherjarþinginu.

„Við viljum fá karlmenn og drengi  að borðinu í umræðunni um jafnrétti kynjana með jákvæðum hætti,“ sagði ráðherra meðal annars í ræðu sinni. „Þetta mun vera einstakt málþing þar sem þetta verður fyrsta skiptið þar sem Sameinuðu þjóðirnar kalla einungis saman karlkyns leiðtoga til að ræða jafnrétti kynjana,“sagði hann einnig.

Málþingið hefur þegar vakið athygli erlendra fjölmiðla. Ísland mun halda ráðstefnuna ásamt Suður- Ameríku ríkinu Surínam en samkvæmt frétt ABC um málþingið eru ástandið í löndunum tveimur afar ólíkt hvað varðar jafnrétti kynjana. Í skýrslu World Economic Forum um stöðu jafnréttismála í heiminum er Ísland efst á lista yfir þau lönd sem standa vel að vígi en Surínam vermir aftur á móti 110. sætið.

Ræðu Gunnars Braga má sjá í heild sinni hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert