„Enn alveg ótrúlega mikill kraftur í gosinu“

Miðgígur gossprungunnar í Holuhrauni heldur áfram að gjósa af miklum …
Miðgígur gossprungunnar í Holuhrauni heldur áfram að gjósa af miklum krafti og teygir hraunbreiðan sig langt í norðurátt. Hraunið mælist nú ríflega 44 ferkílómetrar að stærð. mbl.is/Ómar Ragnarsson

„Það er enn alveg ótrúlega mikill kraftur í gosinu. Nú er kominn mánuður [frá upptökum eldgossins í Holuhrauni] og það er ekkert lát á,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í samtali við Morgunblaðið og bendir á að flest hefðbundin gos vari í um hálfan mánuð.

Að sögn Ármanns er nú mikil kvika komin inn í kerfið og eiga margir jarðskjálftar upptök sín djúpt undir sjálfri Bárðarbungu. „Svo eru skjálftarnir undir Dyngjujökli og gossvæðinu orðnir ansi djúpir sem gefur til kynna að þetta komi ekki allt beint frá Bárðarbungu heldur dýpra að.“

Aðspurður segir Ármann mestan kraft vera í Baugi, sem er miðgígur gossprungunnar í Holuhrauni, en vísindamenn höfðu spáð því áður að virknin myndi með tímanum draga sig í einn ákveðinn gíg.

„Það er í raun ekkert undarlegt við þetta gos nema hvað það framleiðir mikið,“ segir Ármann, en nýjustu mælingar sýna að hraunið er nú orðið ríflega 44 ferkílómetrar að stærð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert