Bílvelta við Öxi

Lögreglan á Egilsstöðum sinnti tveimur útköllum í kvöld þar sem ökumenn höfðu óvart ekið út af veginum. 

Annar ökumaðurinn var á ferð yfir Öxi í kvöld er hann missti stjórn á bílnum vegna veðurofsans með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af veginum og valt. Tvennt var í bílnum og mun farþegann ekki hafa sakað en sá sem sat undir stýri handarbrotnaði samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Snemma kvölds var svo ökumaður að keyra yfir blindhæð í Fellum rétt sunnan við Fellabæ þegar á móti kom bíll á öfugum vegarhelmingi. Ökumanni brá við og keyrði út af en varð þó ekki meint af. Hinn bíllinn keyrði hins vegar áfram, að því er virðist án þess að ökumaður þeirrar bifreiðar tæki eftir slysinu. Lögregla hefur ekki haft hendur í hári þess sem lagði undir sig vitlausan vegarhelming enda varð þeim sem ók út af svo bilt við að ekki gafst tækifæri til að ná bílnúmerinu.

Ekið upp brekkur á veginum yfir Öxi.
Ekið upp brekkur á veginum yfir Öxi. mblis/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert