Glaður að hafa fengið bardagann

Gunnar Nelson mætir Rick Story í Stokkhólmi á laugardaginn.
Gunnar Nelson mætir Rick Story í Stokkhólmi á laugardaginn.

„Ég efast um að hann vilji taka mig niður en ef hann reynir væri planið að snúa honum til baka,“ segir Gunnar Nelson með vott af kímni í röddinni þegar blaðamaður spyr út í herkænsku Rick Story, mótherja Gunnars í UFC hringnum næsta laugardag. 

Bardaginn gegn Story verður 15. bardagi Gunnars en hann er enn ósigraður, með 13 sigra og eitt jafntefli. Story, sem hefur milliviðurnefnið „The Horror“, er aftur á móti með 25 bardaga á bakinu. 17 þeirra hefur hann unnið en átta bardögum hefur hann tapað.

Gunnar segir Story vera sterkan glímumann og þá sérstaklega standandi. Einnig sé hann höggþungur og setji mikla pressu á andstæðinga sína, þá helst ef hann vill ná þeim niður á gólfið. Eins og Gunnar segir sjálfur er það þó líklega ekki það sem Story vill gera á laugardaginn enda er Gunnar þekktur fyrir ótrúleg tilþrif þegar í gólfið er komið.

„Þetta er hörkubardagamaður og hann hefur sýnt það í gegnum árin að hann getur barist og það við hvern sem er,“ segir Gunnar og bendir á að Story búi meðal annars að sigri yfir núverandi meistara, Johny Hendricks. „Hann er búinn að berjast við alla af þessum topp gæjum og hefur verið þokkalega sigursæll. Þetta er algjör nagli og ég er bara mjög glaður að hafa fengið þennan bardaga.“

Þarf ekki að gretta sig

Þrátt fyrir að vera ósigraður enn sem komið er hefur Gunnar eins og hver annar UFC bardagakappi fengið að finna fyrir höggum andstæðinga sinna. Þegar blaðamaður veltir því upp hvort Gunnar sé með hærri sársaukaþröskuld en meðal maðurinn segir hann að svo geti verið, en þó sé það alls óvíst. 

„Maður finnur yfirleitt ekki fyrir sársauka inni í hringnum en það er gott að gera sér grein fyrir þeim höggum sem lenda, ef maður fær gott högg á slæman stað finnur maður vel fyrir því,“ segir Gunnar.

 „Það er samt frekar þannig að maður geri sér grein fyrir höggunum heldur en að maður meiði sig, þurfi að gretta sig og segja "ái“.

Góðir straumar ómetanlegir

Miðað við þá stóísku ró sem Gunnar gefur frá sér mætti halda að hann væri að fara að baka pönnukökur en ekki mæta verðugum andstæðing í adrenalíndrifnum bardaga. Hann segir dagana fyrir keppni mest fara í almenn rólegheit og að í rauninni einkennist vikan mest af bið.

„Ég æfi kannski svona einu sinni á dag,“ segir Gunnar „Við förum og gerum eitthvað létt, svitnum, fáum hjartað af stað, opnum lungun og liðkum en síðan er bara slakað á aftur. Þetta er bara spurningum um að halda sér heitum.“

Gunnar segist finna fyrir miklum stuðningi að heiman og að það hjálpi sér mikið að finna fyrir honum. „Maður finnur það mjög sterkt heima að fólk er að fíla þetta, er að fíla íþróttina og það sem maður er að gera. Almennt fær maður bara góða strauma og það er eiginlega bara ómetanlegt,“segir Gunnar að lokum.

Gunnar Nelson knúsar andstæðing sinn á Eve Fanfest, fyrr á …
Gunnar Nelson knúsar andstæðing sinn á Eve Fanfest, fyrr á árinu. mbl.is/Ómar Óskarsson
Story vill líklega ekki lenda í gólfinu með Gunna eins …
Story vill líklega ekki lenda í gólfinu með Gunna eins og þetta grey. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert