144% verðmunur á æfingagjöldum

Það er mjög misjafnt hvað kostar að æfa handbolta.
Það er mjög misjafnt hvað kostar að æfa handbolta. Eva Björk Ægisdóttir

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á gjaldskrá fyrir börn og ungmenni sem æfa handbolta hjá 16 fjölmennustu handboltafélögum landsins veturinn 2014/15. Mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verði en borin vorum saman æfingagjöld í 4.,6. og 8. flokki. Mestur verðmunur var 144% á æfingagjaldi í 6. flokki.

Öll félögin bjóða upp á æfingar fyrir 8. flokk (6 og 7 ára) en dýrasta árgjaldið er 50.000 kr. hjá Fjölni en ódýrasta gjaldið er 27.000 kr. hjá Umf. Selfoss sem er 23.000 kr. verðmunur eða 85%.

Í 6. flokki (10 og 11 ára) er dýrasta árgjaldið 66.000 kr. hjá Fjölni og ÍR en ódýrasta gjaldið er 27.000 kr. hjá Umf. Selfoss sem er 39.000 kr. verðmunur eða 144%.

Í 4. flokki (15 og 16 ára) er dýrasta árgjaldið 100.000 kr. hjá Fjölni en ódýrasta gjaldið er 45.000 kr. hjá Umf. Selfoss sem er 55.000 kr. verðmunur eða 122%.

Haukar lækka æfingagjald í 6. flokki

Ellefu félög hafa hækkað hjá sér árgjaldið 2014/15 fyrir 6. flokk miðað við í fyrra. Mesta hækkunin er hjá Fjölni úr 55.000 kr. í 66.000 kr. eða um 20%. Þar á eftir kemur KA með hækkun úr 37.000 kr. í 42.000 kr. eða um 14%, Fram, ÍR og Víkingur eru með hækkun upp á 12%, Stjarnan hækkar um 10%, Þór og HK um 9%, ÍBV og Fylkir um 7% og FH um 5%.

Gjaldskráin í 6. flokki er óbreytt hjá Gróttu, Aftureldingu, Val og Selfossi frá í fyrra. Verð ársgjaldsins hefur hins vegar lækkað hjá Haukum úr 51.000 kr. í 46.000 kr. sem er 5% lækkun á milli ára.

ASÍ tekur fram að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðum íþróttafélaganna er ekki metin. Ekki er tekið tillit til hvað félögin bjóða upp á margar æfingar í viku, en ekki er mikill munur á fjölda æfinga milli félaga.

Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til safnanna sem íþróttafélögin standa fyrir og eða styrkja frá sveitarfélögunum, hvorki æfingagallar né keppnisgjöld eru með í gjaldinu sem borin eru saman. Taka má fram að árgjaldið hjá ÍBV er bæði fyrir handbolta og fótbolta og einnig er misjafnt hvort veturinn er 9 eða 10 mánuðir hjá félögunum.

Hér má sjá mun milli félaga á kostnaði við að æfa fimleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert