Tíu þúsund gerðir í EES-samninginn

mbl.is

Samtals hafa rúmlega 10 þúsund lagagerðir frá Evrópusambandinu verið teknar inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) frá því að hann tók gildi árið 1994. Auk ríkja sambandsins eiga aðild að honum EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein.

Fram kemur í frétt norska dagblaðsins Nationen að þessar tölur séu fengnar frá skrifstofu EFTA í Brussel en af þessum 10 þúsund gerðum séu hins vegar einungis um 4.500 enn í gildi. Haft er eftir Tore Grønningsæter, upplýsingafulltrúa EFTA, að sumar gerðirnar hafi verið tímabundnar og fallið sjálfkrafa brott á ákveðnum tímapunkti en aðrar hafi fallið úr gildi við gildistöku nýrrar lagasetningar.

Grønningsæter segir að árin 2012 og 2013 hafi samtals verið teknar 886 lagagerðir inn í EES-samninginn. Það sem af sé þessu ári hafi 347 gerðir verið teknar inn í samninginn. Þá bíði um 560 gerðir eftir því að vera teknar inn í hann.

Heming Olausen, formaður norsku samtakanna Nei til EU sem beita sé gegn inngöngu Noregs í ESB, segir á Facebook-síðu sinni í tilefni af fréttinni að um sé að ræða um 10% af heildarregluverki sambandsins. Það sem mestu máli skipti sé þó ekki fjöldi lagagerðanna heldur innihald þeirra. ESB sé sífellt að móta Noreg í sinni eigin mynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert