Leiðrétting námslána ekki fyrirhuguð

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, hefur ekki í hyggju að leggja fram frumvarp um lækkun á höfuðstól verðtryggðra námslána með sama hætti og fyrirhugað er varðandi íbúðalán.

Þetta sagði ráðherrann á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna. það hefði komið mjög skýrt fram að fyrirhugaðar leiðréttingar á íbúðarlánum væru bundnar við íbúðarlán. Ef til þess kæmi annars að slíkt frumvarp yrði einhvern tímann lagt fram væri það ennfremur á könnu fjármálaráðherra að gera slíkt.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi og spurði Illuga sömuleiðis að því hvort ráðherranum þætti eðlilegt að fólk væri að borga af námslánum eftir að það næði eftirlaunaaldri.

Ráðherrann sagði að námslán eins og önnur lán ættu sér áframhaldandi líf þó lántakinn færi á eftirlaun. Hins vegar mætti gera ráð fyrir því að námið sem fjármagnað hefði verið með námslánunum hefði leitt til tekjuaukningar á starfsævinni sem viðkomandi nyti þegar kæmi að eftirlaunaaldri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert