Nýtt lyf við ólæknandi brjóstakrabbameini eykur lífslíkur

Bleikt Þjóðmenningarhús. Bleika slaufan, árvekniátak í baráttunni gegn krabbameinum hjá …
Bleikt Þjóðmenningarhús. Bleika slaufan, árvekniátak í baráttunni gegn krabbameinum hjá konum er í október. mbl.is/Ómar Óskarsson

Árangur af nýju lyfi við brjóstakrabbameini vakti mikla athygli á krabbameinslæknaráðstefnu sem fór fram í Madrid í síðustu viku. Lyfið heitir Perjeta og rannsóknir tengdar því lofa góðu við ákveðinni gerð af ólæknandi brjóstakrabbameini.

„Það er heilmikið að gerast í lyflækningum krabbameina. Það eru miklar framfarir og alltaf eitthvað nýtt að gerast, sem betur fer, þó að okkur sem erum að vinna í geiranum finnist að það megi gerast enn hraðar,“ segir Friðbjörn Sigurðsson, krabbameinslæknir á Landspítalanum, en hann sótti ráðstefnuna í Madrid.

„Á ráðstefnunni komu fram þær stóru fréttir að lyfið Perjeta, sem viðbót við hefðbundna meðferð, auki lífslíkur sjúklinga með ákveðinn undirflokk af brjóstakrabbameini um rúma fimmtán mánuði. Konur sem eru með brjóstakrabbamein á ólæknandi stigi lifa að meðaltali rúmum 15 mánuðum lengur ef þær fá Perjeta. Þetta á þó eingöngu við þær konur sem eru með ákveðna breytingu sem kallast HER 2. Á Íslandi eru þetta u.þ.b. 15% sjúklinga með brjóstakrabbamein. Það eru því ekki margar konur á Íslandi sem myndu nýta sér þetta lyf, en fyrir þann hóp skiptir það verulegu máli að fá aðgengi að lyfinu,“ segir Friðbjörn.

Lifa í fimm ár eftir greiningu

Niðurstöður sýna að konur sem greinast með brjóstakrabbamein af týpu HER 2 deyja að meðaltali 3,5 árum eftir að meinið er uppgötvað af læknum. Ef Perjeta er bætt við hefðbundna lyfjameðferð lifa þær 4,9 ár eftir að langt genginn sjúkdómur hefur verið greindur.

Perjeta fékk markaðsleyfi á Íslandi í mars í fyrra og það hefur verið markaðssett á Íslandi, samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun. Þegar athugað var hjá Sjúkratryggingum Íslands hvers vegna lyfið væri ekki komið í notkun hér á landi fengust þau svör að ekki væri komið verð á lyfið á Íslandi. En samkvæmt Lyfjaverðskrá sem gildir frá 1. október 2014 er viðmiðunarverð fyrir Perjeta 574.423 kr. Þetta verð er fyrir lyfjaskammt sem gefa þarf á þriggja vikna fresti.

Friðbjörn getur ekki svarað hvenær verður farið að nota lyfið hér á landi en telur vafalítið að það verði fljótlega.

Snúnar ákvarðanir fyrir fámenna þjóð

Lyfið er komið í notkun í flestum nágrannalöndum okkar að sögn Friðbjörns.

„Við erum samt ekki eina þjóðin á Vesturlöndum sem er í vandræðum með hvað eigi að gera með ný lyf, í hvaða ferli eigi að setja málin og hver eigi að taka ákvörðun. Mér finnst koma til álita að Íslendingar semji við erlend lyfjayfirvöld svo sem í Svíþjóð eða Danmörku um að við nýtum okkur þeirra reglur og ákvarðanir. Það er orðið mjög snúið fyrir fámenna þjóð að ákveða hvaða lyf eru notuð og hvaða ekki. Hvers vegna eiga tugir manna að vera að standa í mikilli vinnu hér á landi að ákveða hvort eigi að taka lyf upp eða ekki þegar aðilar svo sem í Stokkhólmi eru að gera það nákvæmlega sama og geta jafnvel gert betur?

Það getur verið svolítið frústrerandi hvernig ákvarðanir eru teknar hér á landi. Mér skilst að Sjúkratryggingar Íslands séu með fimm viðmiðunarlönd, Norðurlöndin og Bretland, og ekki séu tekin upp lyf nema þau öll fimm hafi samþykkt notkunina. Bretar til að mynda nota góðar og en afar strangar leiðbeiningar frá NICE-stofnuninni – National Institute for Health Care Excellence. Stundum segja Sjúkratryggingar að þeir ætli ekki að taka upp nýtt lyf þar sem NICE hafi ekki enn lagt blessun sína yfir lyfið. En vandamálið við þá leið er að Bretar hafa aðrar leiðir til að fá lyfin en í gegnum NICE, það eru t.d. ýmsir sjóðir sem styðja fólk til að fá krabbameinslyf og þá hefur fólk miklu meira aðgengi að klínískum rannsóknum í Bretlandi heldur en hér,“ segir Friðbjörn.

„Okkur læknunum finnst svolítið ósanngjarnt að neita lyfi því það er ekki samkvæmt leyfisveitingu NICE þegar við vitum það að fólk í Bretlandi er samt að fá lyfin. Þetta er einn flötur á málinu en hitt er að lyfin eru allt of dýr. Það vekur furðu að eiginlega öll ný lyf kosta það sama, um 700.000 kr. til milljón á mánuði á hvern sjúkling.“

Þarf að vera réttlætanlegt

Friðbjörn segir að vegna þess hversu dýr ný lyf eru þurfi að vera vissa um að þegar farið er fram á að fá að nota þau að árangurinn sé þá þess virði. „Eitt dæmið er nýtt lyf við briskrabbameini sem kom á markað fyrir nokkrum árum. Það lengdi líf sjúklinga að meðaltali um einungis tvær vikur en kostaði um 700.000 kr. á mánuði. Þá er það mat okkar að það væri ekki réttlætanlegt að biðja stjórnvöld að greiða slík lyf fyrir ekki meiri árangur.

Stundum þarf virkilega að skoða að það eru ekki öll ný lyf þess virði að taka þau upp.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert