Afleiðingarnar mjög alvarlegar

mbl.is

Rannsóknarnefnd samgönguslysa skrifar sérstaka ábendingu í skýrslu sinni um banaslysið sem varð á Akrafjallsvegi í apríl í fyrra. Ung stúlka lét lífið er „ofurölvi“ ökumaður jeppabifreiðar fór yfir á öfugan vegarhelming og lenti framan á bíl stúlkunnar. Stúlkan lést samstundis.

Rannsóknarnefndin skrifar sérstaka ábendingu í skýrslu sína þar sem ítrekuð eru varnaðarorð við ölvunarakstur.

„Undanfarin ár hefur ölvunarakstur verið ein helsta orsök banaslysa í umferðinni. Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um ölvunarakstur. Ökumenn sem setjast ölvaðir undir stýri skapa öðrum og sjálfum sér mikla hættu.

Akstur eftir áfengisdrykkju og vökur eykur líkur á slysum, afleiðingar þeirra verða oft mjög alvarlegar og brýnt að allir séu á varðbergi gagnvart þessari hættu. Áfengi hefur slævandi áhrif á dómgreind þeirra sem neyta þess. Áfengismagn í blóði þarf ekki að verða mikið til að áhrifin skerði einbeitingu hins ölvaða, sjónsvið minnkar og fjarlægðarskyn versnar. Eftir því sem ölvun er meiri skerðist viðbragðstími, hreyfistjórnun og rökvísi sem endar með meðvitundarleysi. Hér eru einungis talin upp nokkur atriði af mörgum áhrifum áfengis á ölvaðan einstakling.“

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki undir neinum kringumstæðum eftir að hafa neytt áfengis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert