„Hafa að engu eigin grundvallarreglur“

Skjáskot

„Umfram allt annað er þetta lýsandi fyrir það hve þeir sem eru á móti íslam eru reiðubúnir að hafa að engu eigin grundvallarreglur,“ segir á Twitter-síðunni @QA_AF sem tengist vefsíðunni sem var lokað hér á landi ásamt léninu Khilafah.is. Ástæðan var sú að vefsíðan innihélt efni frá hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.

Vísað er til þess að ISNIC hafi aldrei áður lokað á lén áður á þeim rúmu tveimur áratugum sem félagið hafi verið starfandi. Boðað er að vefsíðan verði opnuð á nýjan leik á nýju léni. Ummælin eru svar við fyrirspurn frá einstaklingi sem kallar sig Abu Ammaar sem spyr hvort Khilafah.is hafi verið lokað. Hann svarar síðan að ekki sé hægt að búast við neinu góðu frá hinum vantrúuðu eða „kuffar“ sem þykir niðrandi orð um þá sem ekki eru íslamstrúar. Eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag hafa aðstandendur vefsíðunnar ekki sett sig í samband við ISNIC vegna lokunarinnar. Umræddar Twitter-færslur eru hins vegar merktar með @isnic.

Svo virðist sem annarri Twitter-síðu sem tengdist Khilafah.is, @BlackFlagsIS, hafi verið lokað. Þar var meðal annars gagnrýnt um síðustu helgi að hýsingarfyrirtækið Orangewebsite hefði lokað á vefsíðuna þrátt fyrir að leggja mikla áherslu á tjáningarfrelsi viðskiptavina sinna. „Þetta er nú meira „tján­ing­ar­frelsið“ hjá þeim,“ sagði af því tilefni á síðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert