Breyta nöfnum fólks á Facebook

Facebook vill skilja sig frá öðrum hlutum internetsins þar sem …
Facebook vill skilja sig frá öðrum hlutum internetsins þar sem nafnleysi ríkir. Ernir Eyjólfsson

Ný og strangari nafnastefna Facebook hefur hlotið mikla gagnrýni síðustu vikur en Facebook skyldar nú notendur í auknum mæli til að ganga undir raunverulegum nöfnum sínum á samfélagsmiðlinum. Með raunverulegum nöfnum er átt við þau nöfn sem notendur bera í samkvæmt lögum og skráð eru í þjóðskrá eða sambærilega gagnagrunna erlendis.

Margir notendur Facebook notast við gælunöfn á samfélagsmiðlinum sem þeir líta á sem sín raunverulegu nöfn og sömuleiðis eru margir sem ekki vilja bera eigið nafn á veraldarvefnum vegna sjónarmiða um persónuvernd og einkalíf einstaklingsins. 

Í kjölfar breytingarinnar á nafnastefnunni hóf starfsfólk Facebook markvisst að loka reikningum þeirra sem talið var að notuðust við dulnefni með hjálp ábendinga frá notendum. Þær aðgerðir mættu mikilli andstöðu meðal baráttufólks fyrir réttindum samkynhneigðra sem þótti reglurnar brjóta illa gegn samfélagi dragdrottninga sem og transfólks sem ekki hefur fengið nöfnum sínum breytt opinberlega.

Í lok september bað vörustjóri Facebook, Chris Cox, LGBTQ samfélagið afsökunar vegna breytinganna og lýsti The Guardian þar með yfir sigri dragdrottninganna. Cox tók fram að nafnastefna fyrirtækisins væru ætluð til að skilja Facebook frá öðrum hlutum internetsins þar sem notendur geta gert ýmsa óheiðarlega eða slæma hluti í skjóli nafnleysis.

Facebook vissi nafnið

Þrátt fyrir afsökunarbeiðnina heldur herferð Facebook gegn gervinöfnum þó áfram. Herferðin hefur nú náð til íslenskra notenda og á síðustu dögum hafa margir Íslendingar verið krafðir um að breyta Facebook nöfnum sínum.

„Ég fékk bara póst þar sem mér var sagt að ég kæmist ekki aftur inn á Facebokk nema ég notaði mitt raunverulega nafn,“ segir Benóný Harðarson. Hann segir marga vini sína hreinlega ekki þekkja sig undir nafninu Benóný enda er hann yfirleitt kallaður Bensó og notaðist hann áður við gælunafnið á Facebook.

Benóný segir greinilegt að Facebook hafi vitað hans raunverulega nafn. Hann reyndi að skipta út bókstöfum í nafninu þegar hann breytti skráningu þess á samfélagsmiðlinum en ekkert gekk nema hann notaði sitt rétta nafn, eins og það birtist í opinberum gögnum.

„Þetta er ekkert hræðilegt svona í stóra samhenginu,“ segir hann kíminn en bætir svo við, „Ég myndi samt alveg vilja heita Bensó á Facebook“

Gælunöfn eru leyfileg

Þó svo að talsmenn Facebook segi að fallið hafi verið frá kröfunni um að notendur beri sín raunverulegu nöfn virðist að mestu leyti um breytingu á orðalagi að ræða. Í stað þess að þess sé krafist að fólk noti sín „raunverulegu nöfn“ stendur nú í reglum síðunnar að farið sé fram á að fólk notist við það nafn sem notandinn gengur undir dags daglega.

Í reglunum eru notendur beðnir um að nota ekki tölustafi, tákn úr mörgum mismunandi tungumálum, titla eða orð eða gælunöfn í stað millinafns. Þó kemur fram að notast megi við gælunöfn séu þau afbrigði af réttu nafni manns eins og Bob í stað Robert eða Nonni í stað Jóns svo dæmi séu tekin. Virðist það ekki eiga við um gælunafn Benónýs að mati Facebook.

Eins er notendum frjálst að birta aukanafn (e. alternative name) á síðum sínum en lagt er skýrt bann við því að fólk þykist vera eitthvað eða einhver annar en það er í raun.

Komi upp vafi um nafn notanda getur viðkomandi verið gert að senda Facebook staðfestingu á nafni sínu í formi ljósmynda af skilríkjum sem gefin eru út af hinu opinbera. Eins mega notendur senda tvær ljósmyndir af annarskonar skilríkjum, svo sem bankayfirliti, strætó- eða bókasafnskorti, pósti eða kreditkorti. Á allavega einu skilríkjanna þarf að vera mynd af viðkomandi og bæði þurfa að sýna sama nafn og sama fæðingardag.

Bensó var gert að nota fullt nafn á Facebook.
Bensó var gert að nota fullt nafn á Facebook. Ljósmynd/ Benóný Harðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert