Unglingar gátu keypt tóbak í Hafnarfirði

Neftóbak.
Neftóbak. mbl.is/Jim Smart

Unglingar sem sendir voru af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði á fimmtán sölustaði tóbaks í bænum gátu á tveimur stöðum keypt sígarettur og á fjórum stöðum neftóbak. Einn sölustaður seldi unglingum bæði sígarettur og neftóbak.

Tveir unglingar úr 10. bekk fóru á sölustaði undir eftirliti starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar og reyndu að kaupa sígarettur og svo nokkru seinna var reynt að kaupa neftóbak. Ekki var farið inn á staði með vínveitingaleyfi þar sem tóbak er selt.

Sölustöðunum sem seldu börnunum tóbak verður send ábending frá forvarnarfulltrúa og búast má við því að þeir staðir fái einnig áminningu frá heilbrigðiseftirliti eins og kveður á um í lögum um tóbaksvarnir.

Í 8. gr. laga um tóbaksvarnir eru skýr fyrirmæli um sölu tóbaks. Tóbak má hvorki selja né afhenda einstaklingum yngri en 18 ára. Bann þetta skal auglýst með áberandi hætti þar sem tóbak er selt. Leiki vafi á um aldur kaupandans getur sala því aðeins farið fram að hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 18 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert