Helsta áskorun að manna spítalann

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Rax / Ragnar Axelsson

Að manna Landspítalann með vel menntuðu fagfólki er ein helsta framtíðaráskorun spítalans. Kom þetta fram í máli Bryndísar Hlöðversdóttur, starfsmannastjóra Landspítalans, á málþingi á vegum Sam­taka fyr­ir­tækja í vel­ferðarþjón­ustu sem haldið var í sal­arkynn­um Grand Hót­els Reykja­vík í dag.

„Vandi heilbrigðiskerfisins og Landspítalans felst fyrst og síðast í því að við höfum takmarkað fjármagn til að reka sífellt vaxandi kerfi,“ sagði Bryndís. „Starfsánægja hefur farið dalandi síðustu árin hjá okkur og höfum við verið að greina ástæður þess og reynt að takast á við það með ýmsum aðgerðum.“

Stærsti orsakaþátturinn í dalandi starfsánægju heilbrigðisstarfsmanna á Landspítalanum er án efa vaxandi vinnuálag og óviðunandi vinnuaðstæður að mati Bryndísar. Til þess að vinda ofan af þeirri þróun sem átt hefur sér stað innan spítalans að undanförnu þarf að bregðast við þessum atriðum.

Starfsfólk fékk ekki föt sem pössuðu

„Þær aðgerðir sem við fórum í á síðasta ári og á þessu til að auka starfsánægju fólust í því að bregðast við grunnþörfum starfsfólks. Eins og að bæta í vinnufatakostinn sem var orðinn slitinn og lúinn. Fólk gat ekki lengur verið í fötum sem pössuðu á það í vinnunni vegna þess hve takmarkað magn af fatnaði var til,“ sagði Bryndís en auk fleiri þátta sem hún nefndi var frítt kaffi og betri mötuneytismatur handa starfsfólki.

Búast má við ákalli um aukna heilbrigðisþjónustu í framtíðinni með vaxandi fjölda aldraða „og við þurfum að manna þessa þjónustu. Áskorunin fellst í því að fá nægilega margt ungt fólk til að velja sér heilbrigðismenntun sem framtíðarfag. Takist okkur það er næsta áskorun fólgin í því að fá þetta fólk heim til starfa á Íslandi,“ sagði Bryndís og bætti við að því miður sé fremur fátt sem bendi til þess að svo verði raunin.

Of mikil ábyrgð sett á nema

Þá kom hún einnig inn á hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahús. Í dag eru nú 527 nemendur á spítalanum, en á hverju ári fara um 1.500 nemar í gegnum spítalann. Þeir einstaklingar sem við nám eru á Landspítalanum finna hins vegar vel fyrir því mikla álagi sem nú fylgir því að starfa innan veggja hans.

„Þau upplifa mörg að á herðar þeirra sé sett allt of mikil ábyrgð allt of snemma. Þessu þurfum við að vinda ofan af, en við vitum að skortur á sérfræðilæknum bitnar á unga fólkinu. Þetta er ekki leið til þess að laða til okkar fólk.“

Það eru þó fleiri blikur á lofti varðandi unga fólkið á Landspítalanum og fela þær bæði í sér ógnir og tækifæri. Af þeim íslensku ríkisborgurum sem grunnnám hófu í læknisfræði á síðasta ári, og munu að öllu óbreyttu útskrifast árið 2019, mun aðeins um 40% þeirra verða menntaðir hér á landi. En árið 2013 fóru t.a.m. 45 Íslendingar til náms í læknisfræði í Slóvakíu.

„Þessi veruleiki felur án efa í sér fjölmörg tækifæri. Hópurinn verður fjölbreyttari og með fjölbreyttari þekkingu og reynslu. En á móti getur falist í því ógnun að fólk losi tengslin við föðurlandið strax á grunnnámsárunum.“

Kjarnastéttir á spítalanum eldast

Innan fimm ára gætu 56% starfandi lífeindafræðinga Landspítalans farið á eftirlaun. Um 70% skurðhjúkrunarfræðinga eru eldri en 50 ára og um 58% svæfingahjúkrunarfræðinga.

„Það er verulegur skortur á nýliðun í sjúkraliðastétt á Landspítalanum og sú nýliðun sem þó er í stéttinni skilar sér ekki til spítalans,“ sagði Bryndís.

Svipaða sögu er að segja af þeim læknum sem starfandi eru á Landspítalanum en 65% yfirlækna og 40% sérfræðilækna eru 55 ára og eldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert