Breyting til hins verra

Kristrún Elsa Harðardóttir, héraðsdómslögmaður hjá DIKA lögmönnum og fyrrum starfsmaður Útlendingastofnunnar segir þá breytingu sem nýlega var gerð á fyrirkomulagi réttaraðstoðar við hælisleitendur ekki gerða til hagsbóta fyrir umsækjendur um hæli.

Í júlí gerðu Innanríkisráðuneytið og Rauði Krossinn með sé samning sem fól meðal annars í sér að Rauði Krossinn skyldi ráða til sín tvo lögfræðinga  til að sjá um alla réttaraðstoð fyrir umsækjendur um hæli á Íslandi. Á heimasíðu Innanríkisráðuneytisins er samningurinn kallaður tímamót í útlendingamálum. Kristrún bendir hinsvegar á að frá árinu 2012 hafi um 20 sjálfstætt starfandi lögmenn sinnt réttaraðstoð fyrir hælisleitendur, bæði við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og hjá Innanríkisráðuneytinu.

„Það fyrirkomulag gekk mjög vel og hefur verið mikil þróun á réttarsviðinu í kjölfarið. Þeir lögmenn sem sinnt hafa þessum málum hafa sinnt umbjóðendum sínum af kostgæfni og farið með málin alla leið til að gæta hagsmuna sinna skjólstæðinga,“ segir Kristrún og bætir við að þekking á málaflokkum hafi aukist.

Kristrún var sjálf ráðin til Útlendingastofnunnar árið 2012 ásamt öðrum lögfræðingi þar sem aukning í fjölda hælisleitenda hafði myndað einskonar flöskuháls. „Þetta var átaksverkefni sem gekk ótrúlega vel, þrátt fyrir gífurlega aukningu í hælisumsóknum og náðist að vinna málahalann mikið niður og hann minnkaði jafnvel þó svo að hælisumsóknir væru að aukast jafnt og þétt,“ segir Kristrún.

„Svo ákveður ráðuneytið að lögmenn eigi ekki að sinna réttaraðstoð fyrir hælisleitendur lengur heldur ætli þeir að gera samning við Rauða Krossinn  sem ræður einn lögfræðing og einn lögmann sem eiga að sjá um réttaraðstoð fyrir alla umsækjendur um hæli á Íslandi. Þeim er því ætlað að sinna starfi sem áður var sinnt af 20 sjálfstætt starfandi lögmönnum sem höfðu engra hagsmuna að gæta annarra en sinna skjólstæðinga.“

Erfitt að gæta hlutleysis

Kristrún bendir á að ákveðinn hagsmunaárekstur geti orðið þegar einstaklingur sem starfi alfarið við réttaraðstoð við hælisleitendur fái greitt fyrir störf sín frá Innanríkiráðuneytinu. Eins furðar hún sig á því að Rauði Krossinn hafi samþykkt að dregið sé úr þjónustu við hælisleitendur með þessum hætti.

„Rauði Krossinn á að vera hlutlaus hagsmunasamtök sem hafa eftirlit með því að staðið sé vörð um mannréttindi. Í þessu tilviki fær Rauði krossinn greitt frá Innanríkisráðuneytinu og greiðir síðan lögfræðingunum sem sinna réttaraðstoðinni. Þeir lögfræðingar sem ráðnir hafa verið til starfa fyrir Rauða krossinn eru settir í mjög erfiða stöðu þar sem erfitt er að sjá að þeir geti gætt eingöngu hagsmuna þeirra hælisleitenda sem þeir eru að aðstoða, m.a. fara með mál fyrir dóm þegar í því felst einnig hætta á að styggja launagreiðanda sinn,“ segir Kristrún.

Hún segir hælisleitanda þegar hafa leitað til hennar  þar sem þeir treystu því ekki fyllilega að lögmenn sem ráðnir hafa verið af Rauða krossinum, samkvæmt samningi við Innanríkisráðuneytið, muni vinna alfarið að þeirra hagsmunum. Þá óttist þeir einnig að máli þeirra verði ekki sinnt sem skyldi þar sem eingöngu séu tveir lögmenn sem sinna eigi öllum hælisleitendum á Íslandi.Hún bendir hinsvegar á að það sé á fæstra færi að leita sér slíkrar lögfræðiaðstoðar vegna fjárhags. „Það er yfirleitt ekki á færi þeirra sem eru að koma hingað úr mjög erfiðum aðstæðum og stríðshrjáðum löndum að reiða fram háar fjárhæðir í lögmannskostnað. Sumir koma jafnvel ekki með neitt nema fötin sem þeir standa í þá stundina. Með þessu er því einnig verið að búa til aðstöðumun meðal hælisleitenda á Íslandi.“

Hún segir nauðsynlegt að hverfa aftur til fyrra fyrirkomulags og bendir á að slík framkvæmd, að sjálfstætt starfandi lögmenn sinni réttaraðstoð við hælisleitendur, sé einnig við líði í þeim löndum sem Ísland vilji helst bera sig saman við, s.s í Noregi.

„Það er mjög mikil hætta á því að þegar tveir aðilar eru farnir að sinna hagsmunagæslu sem áður var sinnt af um tuttugu sjálfstætt starfandi lögmönnum, þá færist flöskuhálsinn sem áður var hjá Útlendingastofnun, til Rauða krossins, þar sem hætta er á að þessir tveir lögfræðingar anni ekki málafjöldanum. Þá er einnig hætta á því að gæði málsmeðferðar og hagsmunagæslu verði í samræmi við það.“

Kristrún telur að réttaraðstoð við hælisleitendur eigi að vera í …
Kristrún telur að réttaraðstoð við hælisleitendur eigi að vera í höndum sjálfstætt starfandi lögmanna. Ljósmynd/Kristrún Elsa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert