Finna landsliðsmann í póker

AFP

Um helgina fer Íslandsmeistaramótið í póker fram á Hótel Borgarnesi. Davíð Þór Rúnarsson, formaður Pókersambands Íslands segir mótið aldrei hafa verið glæsilegra. „Ég get lofað betri stemmningu en hefur verið nokkurn tíma áður,“ segir Davíð kokhraustur.

Hann virðist þó eiga innistæðu fyrir loforðinu því nú þegar hafa 125 keppendur skráð sig til leiks sem er töluverð aukning miðað við síðustu ár. Davíð segir að yfirleitt bætist við 50 til 60 manns þegar kemur að keppni en þátttökugjald eru 55 þúsund krónur á haus.

Sigurvegari mótsins mun hljóta þrjár milljónir króna í sinn hlut auk silfurarmbands líkt og hefð er og sérmerktan glerbikar. Í ofanálag mun sigurvegaranum hlotnast sá heiður að verða fyrsti íslenski landsliðsmaðurinn í póker.

Davíð segir póker sé hugaríþrótt sem snúist um hæfni en ekki heppni. „Pókersamband Íslands er skráð í International Federation of Poker sem eru löggild samtök þannig að við hyggjumst stofna landslið og senda það út til keppni á næsta ári. Það mót stendur einmitt yfir akkúrat núna í Berlín en við ákváðum að senda ekki lið fyrr en á næsta ári þegar við erum búin að ganga frá öllum málum hérna heima.“

Davíð segir ferlið á bakvið myndun landsliðs vera pínu flóknara en erlendis en að líklegast verði fjórir í landsliðinu og tveir varamenn. „Það eru yfirleitt sömu aðilarnir sem eru í efstu sætunum en svo er allur gangur á því hverjir vinna eins og í öllum íþróttum,“ segir Davíð um líklega landsliðsmenn framtíðarinnar. Hann bendir á að að póker sé ekki kynjaskipt íþrótt eins og svo margar aðrar.

„Það er það besta við þetta. Stelpurnar eru að koma sterkar inn eins og til dæmis Aníka sem er fyrsti pókerspilarinn hérlendis til að vinna báða titlana,“ segir Davíð en Aníka Maí Jóhannsdóttir varð Íslandsmeistari í póker 2012 og um síðustu helgi var hún Íslandsmeistari í pókerafbrigðinu Omaha. Hann tekur fram að Aníka sé ekkert einsdæmi og að konur séu ekki óalgeng sjón við lokaborðið. „Konur eru bara seigari en strákarnir ef eitthvað er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert