N1 oftast með hæsta verðið í könnun á dekkjaskiptum

Allt að 9.000 kr. verðmunur er á þjónustu við dekkjaskipti fyrir jeppa af stærri gerðinni með álfelgu af stærð 265/60R18. Þetta kemur fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði hjá 27 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið þann 27. október sl.

N1 var oftast með hæsta verðið á þjónustunni en Titancar í Kópavogi var alltaf með lægsta verðið, að því er segir á vef ASÍ.

Fram kemur, að mesetur verðmunur í könnuninni hafi verið á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa (t.d. Mitshubishi Pajero)  með 18" álfelgu (265/60R18) sem hafi verið ódýrust á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 14.010 kr. hjá N1. Verðmunurinn var því 9.010 kr. eða 180%. Fyrir stálfelgu af sömu stærð var ódýrast að umfelga á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrast á 12.685 kr. hjá Höldur dekkjaverkstæði Akureyri. Verðmunurinn var 7.685 kr. eða 154%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á dekkjaskiptum fyrir meðalbíl (t.d. Subaru Legacy) á 16" stálfelgum (205/55R16) en hún var ódýrust á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 7.420 kr. hjá N1, verðmunurinn var 2.420 kr. eða 48%. Fyrir bíl á álfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 8.614 kr. hjá N1. Verðmunurinn var 3.614 kr. eða 72%. 

Nánar á vef ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert