Róðurinn gæti þyngst eftir helgi

Mynd er úr safni.
Mynd er úr safni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Dagurinn á Landspítalanum hefur samkvæmt heimildum mbl.is gengið stóráfallalaust fyrir sig, en verkfallsaðgerðir lækna á lyflækningasviði standa nú yfir. Næstu verkfallsaðgerðir munu að óbreyttu eiga sér stað aðfaranótt mánudags og gæti næsta vika orðið spítalanum erfið.

Starfsmaður Landspítalans sem blaðamaður mbl.is ræddi við sagði fólk almennt sýna verkfallsaðgerðum lækna þolinmæði og skilning. Ljóst er þó að nokk­ur vinna er nú framund­an við að leysa úr þeirri flækju sem mynd­ast hef­ur. Þarf m.a. að end­ur­skipu­leggja biðlista sem lengst hafa veru­lega vegna verk­fallsaðgerða.

Þegar læknar á lyflækningasviði hófu verkfallsaðgerðir sínar var óttast að álagið á bráðamóttöku spítalans myndi aukast til muna. Eftir því sem mbl.is kemst næst hefur ásókn á þessa deild spítalans verið heldur minni en búist var við og því hafi hlutir þar gengið með ágætum fyrir sig.

Reikna má með að næsta vika verði Landspítalanum heldur þyngri en strax við upphaf hennar mun tveggja sólarhringa verkfall lækna á aðgerðarsviði og flæðasviði spítalans hefjast. Undir flæðasvið teljast bæði bráðamóttaka og öldrunardeildir spítalans.

Við þetta bætist svo allsherjarverkfall Skurðlækningafélags Íslands sem hefst næstkomandi þriðjudag.

Samn­inga­nefnd Lækna­fé­lags Íslands mun næst funda í húsa­kynn­um Rík­is­sátta­semj­ara næstkomandi mánudag klukk­an 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert