Skapa töfraheim í tónleikhúsi fyrir börn

Hljóðfæraleikararnir í Sinfóníuhljómsveitinni, Herdís Anna Jónsdóttir og Steef van Oosterhout …
Hljóðfæraleikararnir í Sinfóníuhljómsveitinni, Herdís Anna Jónsdóttir og Steef van Oosterhout slagverksleikari, skipa Dúó Stemmu og þeim þykir ekki verra að bregða hressilega á leik í lífi og starfi.

Dúó Stemma, sem er skipað hjónunum Herdísi Önnu Jónsdóttur víóluleikara og Steef van Oosterhout slagverksleikara, hefur boðið upp á tónleikhús fyrir börn á leikskólaaldri og í fyrstu bekkjum grunnskóla undanfarin tíu ár. Leikurinn er aldrei langt undan hjá hjónunum sem notast m.a. við heimagerð hljóðfæri í tónleikhúsinu. Þau halda tvenna tónleika í Hannesarholti á laugardaginn þar sem gestum býðst tækifæri á að hlýða á afrakstur þeirra síðustu ár.

Þetta byrjaði allt þegar strákarnir okkar voru í leikskóla. Þá báðu kennararnir okkur um að spila á hljóðfærin okkar fyrir börnin þar sem við erum bæði í Sinfóníuhljómsveitinni. Við bjuggum til einskonar tónleikhús sem gekk vel og leikskólakennararnir hvöttu okkur áfram. Þá byrjaði boltinn að rúlla í grasrótinni og við höfum verið að síðan, og nú eru liðin tíu ár,“ segir Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari um tilurð Dúó Stemmu sem hún skipar ásamt eiginmanni sínum Steef van Oosterhout slagverksleikara.

Dúó Stemma býður upp á tónleikhús fyrir börn á leikskólaaldri og á fyrstu stigum grunnskólans. Hjónin hafa spilað um allt land. Þau tóku þátt í vestnorrænu verkefni á vegum Norræna hússins nýverið og spiluðu í Færeyjum og Grænlandi fyrir yngri grunnskólabörn. Þess má geta að Dúó Stemma hlaut viðurkenninguna Vorvindar frá IBBY-samtökunum árið 2008 fyrir framlag til barnamenningar á Íslandi.

Leikkona býr í hljóðfæraleikaranum

„Mig langaði mikið að verða leikkona en ég valdi að verða hljóðfæraleikari,“ segir Herdís Anna og hlær. Segja má að leikkonan sem býr í henni fái að leika lausum hala í tónleikhúsinu sem hjónin skapa. Þar eru sagðar sögur með tónum og hljóðum.

„Þegar við vorum að byrja í þessu þá sá maðurinn minn, sem er Hollendingur, að ég kunni mikið af þjóðlögum og þulum sem ég hafði ekki haldið sérstaklega á lofti. Þetta sá útlendingurinn. Við byggjum okkar töfraheim mikið á þessum þjóðararfi.“

Tónleikhúsið lifnar við með hinum ýmsu hljómum og tónum sem njóta sín í heimatilbúnum hljóðfærum sem Steef býr til. Sum hljóðfærin líta til dæmis út eins og froskar, steinar breytast í álfkonur og taktur er sleginn á skyrdósir svo fátt eitt sé nefnt.

Herdís segir fullorðna gleyma sér líka á sýningunni og finna barnið í sjálfum sér. „Við höfum mjög gaman af þessu og missum okkar líka því þessi tónaveröld er svo mögnuð. Hún getur leitt mann svo langt.“

Stemma hjarta og hljóma

Nafngiftin Dúó Stemma vísar til þeirra beggja. „Þetta stemmir allt hjá okkur tveimur bæði hjörtu og hljómar.“

Spurð út í hvað börnum finnist um tónleikhúsið segir hún þau fá mikið þakklæti og ótal faðmlög í lokin. Herdís nefnir þó að fallegasta upplifunin hafi verið þegar þau spiluðu í Hollandi í skóla fyrir innflytjendur. Þar var ung stúlka frá Íran. Þegar þau voru búin að spila kom hún hlaupandi og bað þau að taka sig með. Þau sögðust ekki geta gert það.

„Hún hljóp á eftir okkur að skólahliðinu, þá skildi ég allt í einu að við höfðum búið til góða veröld sem hún vildi dvelja áfram í. Þá skynjaði ég svo sterkt hvað við náum að gera.“

Út fyrir þægindarammann

Hjónin ákváðu í fyrsta skipti á þessu ári að taka sér stutt frí frá Sinfóníuhljómsveitinni til að hlúa að Dúó Stemmu. „Það er svo hollt og gott að taka sér aðeins frí frá fastri vinnu og fá tækifæri til að sinna eigin sköpunarþörf.“

Afrakstur hjónanna síðustu ár má hlýða á á laugardaginn næsta. Þá halda þau tvenna tónleika í Hannesarholti. Dagurinn verður því eins konar Dúó Stemmu dagur og er í raun nokkurs konar þversnið af vinnu hjónanna síðustu ár.

Barnatónleikar sem nefnast Heyrðu villuhrafninn mig, verða klukkan 13. Þeir eru hugsaðir fyrir (leikskóla)börn á öllum aldri. Þeir eru í svipuðum dúr og þau hafa haldið í leikskólunum.

Klukkan 17 eru tónleikar fyrir fullorðna. Þar verða þjóðlög í fyrirrúmi. Flutt verða m.a. Fimm lög frá Gautlöndum, verk sem Snorri Sigfús Birgisson skrifaði fyrir þau. Frumflutningur á verkinu Árstíðirnar í húsinu eftir Tryggva Baldvinsson við Hækur eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur og þá bætist Ingibjörg Guðjónsdóttir sópransöngkona í hópinn, Elegia eftir Hjálmar Ragnarsson og einnig verða leikin þjóðlög í útsetningu Dúó Stemmu.

Dúó Stemma notar hina ýmsu hluti til að skapa skemmtilegan …
Dúó Stemma notar hina ýmsu hluti til að skapa skemmtilegan og lifandi hljóm í tónleikhúsinu og bregst ekki boglistin.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert