Stéttarfélög koma ekki í stað flokkanna

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins ávarpði Sjálfstæðismenn í morgun
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins ávarpði Sjálfstæðismenn í morgun mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir stéttarfélög ekki geta komið í stað stjórnmálaflokkanna. Kom þetta fram í ræðu hans á flokksfundi Sjálfstæðisflokksins í morgun.

 Bjarni sagði aðila vinnumarkaðarins hafa látið stór orð falla um þátt ríkisstjórnarinnar á vinnumarkaði síðasta árið en að sú fullyrðing að ríkið hafi rofið sátt á vinnumarkaði með launahækkunum umfram almenna markaðinn stæðist enga skoðun.

 „Aðilar vinnumarkaðarins eiga mikið hrós skilið fyrir þá nálgun sem beitt var við gerð samninga síðasta vetri. Við studdum þá nálgun og menn ættu að slá sér á brjóst og hrósa sér fyrir árangurinn, í stað þess að bölsótast út í allt og alla,“ sagði Bjarni.

 Hann sagðist verða gáttaður á því þegar leiðtogar launþegahreyfingarinnar og forystumenn ýmissa stéttarfélaga halda því fram að áherslur og aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu aðför að launafólki.

 „Það er komið meira en nóg af því að talað sé til stjórnmálaflokkanna líkt og þeir séu til fyrir sjálfa sig og hinir einu sönnu talsmenn launþeganna í landinu séu stéttarfélögin.  Auðvitað gegna þau afar mikilvægu hlutverki og við viljum starfa með þeim þar sem það á við til að finna betri lausnir, en þau koma aldrei í stað stjórnmálaflokk,“ sagði Bjarni.

Hann hafnaði því að núverandi ríkisstjórn væri ríkisstjórn ríka fólksins. „ Hið rétta er að ríkisstjórnin lagði aukna skatta á fjármálafyrirtækin, afnám undanþágur slitabúa en létti sköttum af vinnandi fólki.  Bankar borga meira - fólkið minna.“

Bjarni sagði að breytingar á virðisaukaskattskerfinu og afnám vörugjalda feli í sér skattalækkun fyrir heimilin.  „Þetta snýst ekki bara um ísskápa og flatskjái heldur um 800 vöruflokka,“ sagði hann og bætti síðar við að áhrif lækkunar vörugjalda væru þegar farin að skila sér til neytenda.

„Sóknin er hafin“

Bjarni vék stuttleta að læknadeilunni og sagðist hafa áhyggjur af kjaradeilunum. Þá sagði hann frá viðtali sem hann hafði lesið við læknanema í Bandaríkjunum sem sagðist í hjarta sínu tilbúinn að snúa heim ef botninum væri náð,

„Ég verð að segja að ég finn að allmargir hugsa með þessum sama hætti, spyrja sig hvað sé framundan. En, kæru félagar, við höfum nú þegar fengið viðspyrnuna, framhaldið er undir okkur sjálfum komið,“ sagði Bjarni.

Hann sagði árið 2014 marka þáttaskil í efnahagslegu tilliti, sagði að skuldasöfnun ríkisins hafi verið stöðvuð, skattalækkanir hafnar, kaupmátt hafa aukist og að verðbólga hafi ekki verið lægri í áratug. Þá bætti hann við að í þetta væri árið þar sem landsframleiðslan færi í fyrsta skipti yfir það sem hún var fyrir hrun.

„Við þennan ágæta lækni, sem ég vil mjög gjarnan fá heim, og alla aðra sem efast, segi ég því þetta. Við höfum ekki einungis spyrnt okkur frá botninum. Við erum komin upp úr öldudal kreppunnar og það eru horfur á góðum hagvexti næstu árin. Héðan sækjum við fram á traustum grunni.  Sóknin er hafin,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði alrangt að framlög til heilbrigðismála hafi verið skorin niður í tíð núverandi ríkisstjórnar og að á næsta ári verði framlög til Landspítalans sex milljörðum hærri en þegar hún tók við. Sagði hann að forgangsraðað hefði verið í ríkisrekstrinum í þágu heilbrigðismála og að þrátt fyrir allt sem sagt væri væri heilbrigðiskerfi Íslands með þeim bestu í heimi.

Hann sagði þó ljóst að húsnæði Landspítalans væri úrelt og þarfnaðist bóta en að fjármögnun á úrbótum á því yrði að rúmast innan fjárlagarammans. „Við getum og eigum að hefja þessa uppbyggingu á kjörtímabilinu, án þess að stefna markmiði um hallalaus fjárlög í uppnám.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert