Mistökin verða í aðalhlutverki í Hörpu annað kvöld

Þóra Tómasdóttir, skipuleggjandi hátíðarinnar Festival of Failure.
Þóra Tómasdóttir, skipuleggjandi hátíðarinnar Festival of Failure. Þóra Tómasdóttir

Afdrifaríkt dauðsfall Hollywood-leikara, dagbækur Kurt Cobain, höfnunarbréf af ýmsum toga og handrit sem búið var að hafna sex sinnum en endaði á að vinna stórglæsileg verðlaun  verður meðal þess sem gestir viðburðarins Festival of Failure munu heyra meira af en hátíðin verður haldin í fyrsta sinn í Hörpu annað kvöld, hinn 3. nóvember klukkan 20.30.

„Þetta er örfyrirlestramaraþon þar sem skapandi einstaklingar úr ólíkum áttum segja frá og sýna brot af mistökum sem þeir hafa gert á ferli sínum,“ segir Þóra Tómasdóttir, skipuleggjandi hátíðarinnar.

Á hátíðinni er tekist á við mistök sem órjúfanlegan hluta af öllu skapandi starfi og rýnt í hvernig þau geta stundum leitt fólk á vit nýrra ævintýra.

„Fólkið sem kemur fram á það sameiginlegt að hafa brennt sig á einhverju í skapandi vinnu og gert mistök eða ekki komist á leiðarenda með það sem það upprunalega vildi framkvæma. Það getur verið allt frá mjög fyndnu klúðri, fáránlegri ákvörðunartöku yfir í hreinlega að mæta einhverju ófyrirsjáanlegu mótlæti sem setur strik í reikninginn,“ segir Þóra en gestirnir geta spurt spurninga, hlustað og í besta falli lært eitthvað af þessu.

Nokkrir einstaklingar héðan og þaðan úr þjóðfélaginu koma fram á hátíðinni og fara með 10-15 mínútna erindi hver um sína reynslu.

 „Á hátíðinni kemur fram fólk sem fæst við skriftir, fólk með tónlistarbakgrunn, fólk sem er að gefa út, kvikmyndargerðafólk og líka nýskapandi fólk, ekki bara tengt listum. Þetta er öll flóran,“ segir Þóra.

Frítt er inn á viðburðinn og síðu hátíðarinnar má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert