Páll: „Nú er stund milli stríða“

Páll Matthíasson, forstjóri LSH.
Páll Matthíasson, forstjóri LSH. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Eftir því sem verkfallið varir lengur, þeim mun meira safnast upp af biðlistum,“ segir Páll Matth­ías­son, for­stjóri Landspítalans. Verkfallsaðgerðir lækna í Lækna­fé­lagi Íslands og Skurðlæknafélagi Íslands hóf­ust fyr­ir tveimur vikum og síðan þá hefu 1.000 dag- og göngudeildarkomum og um 250 skurðaðgerðum verið frestað.

Engar verkfallsaðgerðir eru boðaðar í þessari viku, en stjórnendur LSH funduðu í dag þar sem næstu skref verða meðal annars ákvörðuð. „Það er ljóst að nú er stund milli stríða og við biðlum til stjórnvalda og deiluaðila að reyna að ná samningum,“ segir Páll.

Hann segir spítalann og læknafélögin þó hafa undirbúið verkfallið vel, og viðbragðsáætlanir innan spítalans snúi fyrst og fremst að því að tryggja öryggi sjúklinga. Staðan geti þó orðið alvarlegri náist samningar ekki fljótlega.

Fjármunirnir passa ekki verkefninu

Páll segir efnistök fundarins þó víðtæk, en einnig er þar rætt um fjárlögin fyrir árið 2015. „Við erum búin að skera mikið niður á spítalanum og ná gríðarlegri hagræðingu sem tekið er eftir víða um lönd, en þrátt fyrir inngjöf á árinu 2014 þá vantar töluvert upp á og við erum komin inn að beini,“ segir Páll. 

„Miðað við óbreytt fjárlagafrumvarp þá passa fjármunirnir ekki verkefninu svo við biðlum til stjórnvalda að sýna því skilning.“

Hann segir meginástæðu þess að það stefni í framúrkeyrslu aukið álag. „Skurðaðgerðir hafa aukist um 2,6% og legudögum fjölgað um 1%. Fjármögnunarmódel spítalans tekur ekkert tillit til þess og það er mjög slæmt.“

Stuðningur við nýbyggingu á Hringbraut mikill

Þá segir Páll jafnframt rætt um húsnæðismál á fundinum, en stjórnendur spítalans hafa sagt það löngu tímabært að endurnýja húsakost spítalans.

Páll greindi frá því á fundinum fyrr í dag að samkvæmt nýrri Gallup könnun frá miðjum október, þar sem 1.450 manns voru spurðir um afstöðu til að reisa nýbyggingu við Hringbraut, hafi 60% þeirra sem svöruðu verið fylgjandi og einungis fjórðungur á móti. „Við finnum því fyrir velvilja, ekki einungis frá Alþingi heldur líka frá þjóðinni.“

Hann segir stuðninginn við það að ráðast í nýbyggingu á Hringbraut vera augljósan, og það sé því ákaflega mikilvægt að fundin verði leið til að fjármagna það.

„Hagur heilbrigðisþjónustunnar er að fólk fái borgað í samræmi við ábyrgð og menntun, sé í viðunandi húsnæði og viðunandi fé sé til rekstrar. Þetta er þríþætt og það er ekki hægt að skilja einn þátt frá öðrum,“ segir Páll að lokum.

Hefur áhrif á þjónustu fram á næsta ár

Landspítalinn.
Landspítalinn. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert