Hvetur Björk til að hafna leiðréttingunni

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hvetur Björk Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í dag til að staðfesta ekki 2 milljóna króna niðurfærslu á íbúðaláni Bjarkar vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Tilefnið eru ummæli Bjarkar á Facebook í dag þar sem hún sagðist ekki þurfa á leiðréttingunni að halda:

„Kæru skattgreiðendur. Þið hafið lækkað húsnæðislán mitt um tæpar 2 m.kr. þó ég eigi mjög auðvelt með að greiða af láninu. Á sama tíma ná börnin mín og annað fólk á leigumarkaði ekki endum saman. Þess vegna finnst mér þetta óréttlátt. Við ríka fólkið þurfum ekki að verða ríkari - en aðrir þurfa mun meira en þeir hafa.“

Vigdís segir í kjölfarið á Facebook-síðu sinni að hún hvetji Björk og aðra sem hafi óvart sótt um skuldaleiðréttingu að staðfesta hana ekki í desember. „Ég hvet t.d. Björgu Vilhelmsdóttur að staðfesta ekki skuldaniðurfellingu upp á 2 milljónir sér til handa í desember - svo virðist vera að hún hafi sótt "óvart" um - því umsóknin var valfrjáls.“

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, tjáir sig einnig um málið á Facebook-síðu sinni í dag og furðar sig á þeim sem kvarti yfir því að hafa fengið skuldaleiðréttingu. „Ég á erfitt með að skilja fólk sem kvartar yfir því að hafa fengið leiðréttingu. Allir sem fá leiðréttingu sóttu sjálfir um. Hví að sækja um eitthvað sem maður vill ekki?“

Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi.
Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert